140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka umræðuna en ég fyllist nú smá vonleysi eftir að hlusta á síðasta hv. þingmann tala. Ég ætlaði einmitt að skora á þingheim við ynnum að því saman að hlífa þessum málaflokki. Ég er sannfærð um að hæstv. velferðarráðherra stendur ekki í þessum niðurskurði með glöðu hjarta, en mig langar að benda hæstv. ráðherra á að í stað þess að skera niður í þessum málaflokki, heilbrigðiskerfinu, að skera frekar niður í vaxtakostnaði ríkisins.

Nú er búið að skera niður til þess að ná upp í hrunsvextina svokölluðu. Þess vegna er fullt tilefni til þess að í stað þess að fara enn dýpra í merginn á heilbrigðisþjónustu landsmanna að kanna allar mögulegar leiðir til að skera frekar niður vaxtakostnaðinn.

Mig langar til að árétta og skora á þingmenn með því að vitna í orð manns sem heitir Árni Gunnlaugsson og ritaði ágæta grein á visir.is til varnar St. Jósefsspítala þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Hér með er skorað á þingmenn að hindra, að atlagan að St. Jósefsspítala takist og með því standa vörð um þá mikilvægu hagsmuni sjúklinga að fá áfram notið ómetanlegrar aðhlynningar á þeim spítala, sem er eitt besta og elsta sjúkrahús landsins …“

Mig langar líka að benda á að því miður er það þannig að atlagan er mest að öldruðum. Ég trúi því ekki að hæstv. velferðarráðherra vilji taka þátt í slíkri atlögu.