140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:42]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur að mestu verið málefnaleg.

Mig langar samt aðeins að tæpa á nokkrum atriðum vegna þess að talað er um að gerðar hafi verið grundvallarbreytingar. Þar vil ég minna á að það sem gert hefur verið hefur verið unnið samkvæmt lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, og þeim hefur verið fylgt í öllum meginatriðum.

Varðandi samráð gat ég þess áðan að við fórum með þrjá hópa um landið. Nú í augnablikinu er hópur starfandi sem vinnur með starfsmönnum ráðuneytisins, fulltrúum frá Landspítala eða forstjóra Landspítalans, forstjórunum á Akureyri, Egilsstöðum, Vesturlandi og raunar fleirum, en á höfuðborgarsvæðinu ásamt Boston Consulting Group og þar er væntanleg skýrsla. Þá fáum við að sjá nýjustu tölur um hvað verið er að gera í heilbrigðiskerfinu miðað við þessar niðurskurðartillögur og hvaða tækifæri og ógnanir eru í málunum.

Varðandi landsbyggðina er það alveg einlægur ásetningur að við ætlum ekki að skerða þá þjónustu sem er nauðsynleg þar. (Gripið fram í.) Aftur á móti ætlum við að viðurkenna að sumt af því sem við höfum haft ráðum við ekki við lengur vegna nýrrar tækni og nýrra krafna og auk þess ætlum við að taka tillit til breyttra samgangna hvað það varðar. Við höfum haft alveg skýran forgang í því hvernig verja á heilsugæsluna; verja á sérhæfðu þjónustuna sem er á Landspítala og Akureyri, en aftur á móti hefur verið skorið hvað mest á sjúkrasviðunum. Það liggur fyrir í tölum sem lagðar hafa verið fram, m.a. á fundi hér, að við höfum skorið niður almennu sjúkrahúsþjónustuna um 16% að raungildi frá 2006 en frá árinu 2006 hefur bæst við í nánast öllum liðum.

Ef við tökum almannatryggingarnar án atvinnuleysistrygginga hafa þær aukist frá 2006 um 19% þrátt fyrir hrunið, þannig að ég held að menn verði aðeins að skoða tölur og reyna að nálgast málið af hógværð og yfirvegun. Markmið okkar allra er að efla og tryggja sjúkrahúsþjónustu og heilbrigðisþjónustu almennt í landinu. Við viljum gera hana sem hagkvæmasta og það gildir auðvitað um velferðina alla í heild. Við eigum að vinna saman að því, það er það sem ég kalla eftir, ekki að vera með upphrópanir heldur reyna (Forseti hringir.) að nálgast málin með einlægum hætti og samkvæmt upplýsingum. Það höfum við reynt að gera og það munum við reyna að gera áfram.