140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

matvæli.

138. mál
[12:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hygg að fleirum hafi farið eins og mér í sumar þegar fréttir komu af því að skyndilega væri það orðið bannað og ekki í samræmi við landsins lög að selja heimatilbúinn bakstur á kökubösurum eða við önnur álíka tilefni, að ég þurfti að klípa mig í handlegginn og spyrja sjálfan sig hvort þetta væri nú einhver vitleysa, ofheyrn, misheyrn, eða hvort 1. apríl hefði farið fram hjá mér. Ég hygg að þetta mál hafi komið flestum í opna skjöldu og kannski þurft að láta segja sér það þrim sinnum eins og Njáll forðum, svo sérkennilega bar það mál allt saman að. Hér er ég auðvitað ekki að vísa til frumvarps hæstv. ráðherra heldur til þess tilefnis sem frumvarpið er sprottið af.

Við höfum flest upplifað það í gegnum tíðina að hafa notið ágætisheimabakkelsis sem er selt í góðgerðarskyni vítt og breitt um landið, þess vegna hygg ég að flestum hafi komið þetta mjög á óvart. Það er auðvitað freistandi, eins og menn gera stundum, að kenna eftirlitsaðilunum um, að þeir séu kaþólskari en páfinn og skilji ekki nokkurn skapaðan hlut, en ég ætla nú ekki að leggjast svo lágt. Ég held að við sem sitjum á Alþingi og berum ábyrgð á löggjöfinni — ég geri það ekki síður en aðrir, ég tók t.d. þátt í undirbúningi að núverandi matvælalöggjöf og sat í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem fór sínum tíma höndum um málið og við gerðum á því breytingar allt í góðri trú, hygg ég. Sú breyting sem hér um ræðir og rakin er til einhverra breytinga sem gerðar voru á löggjöfinni sem knúið hafa þá eftirlitsaðila til að ganga harðar fram gagnvart sölu á heimabakstri en áður hafði tíðkast. Megi rekja þetta til löggjafarinnar eigum við ekki að kippa okkur upp við að taka ábyrgð á því máli, við höfum nú gert annað eins. Það er einmitt verkefni Alþingis og engra annarra að breyta lögum og þá breytum við þeim bara.

Þessi starfsemi, hvort sem það er kökusala eða annars konar sala á matvælum á opinberum vettvangi, er hluti af samfélagi okkar. Ég hygg þess vegna að þetta sé einhvers konar frumvarp til laga um heilbrigða skynsemi og við hljótum a.m.k. að geta sammælst um hana.

Við viljum auðvitað að öll framleiðsla í landinu á matvælum sé þannig að við getum verið sæmilega örugg sem neytendur um að geta neytt þessara matvæla og þess vegna höfum við sett alls konar reglur og auðvitað grundvallarlöggjöfina, sjálfa matvælalöggjöfina í þessu sambandi. Matvælalöggjöfinni er ekki síður ætlað að auðvelda framleiðslu okkar framleiðsluvörum til sölu á alþjóðlegum mörkuðum. Það var forsenda þess að við settum nýja matvælalöggjöf, ef við hefðum ekki haft slíka löggjöf var sú hætta uppi að það torveldaði útflutning á okkar eigin vörum. Það á við um sjávarútveginn og það á núna við í vaxandi mæli um landbúnaðinn. Ég spái því að útflutningshagsmunir landbúnaðarins vaxi mikið til lengri tíma litið.

Við erum líka með ákveðna staðbundna framleiðslu og sölu sem er hluti af samfélagsgerð okkar. Við höfum, hygg ég, fæst okkar velt því fyrir okkur hvort okkur sé hætta búin ef við borðum af hlaðborði sem kvenfélög, slysavarnadeildir, skátar eða íþróttamenn hafa undirbúið. Ég get gert þá játningu að sjálfur hef ég oft sest að slíkum borðum og oft reyndar borðað meira en mér er hollt. Það er ekki við matvælalöggjöfina að sakast, það er ekki við þá sem bökuðu að sakast, það er fyrst og fremst við staðfestuleysi míns sjálfs að sakast.

Kjarni málsins er þessi: Þetta er bara eitt af því sem við viljum flest að sé til. Þó að við séum mjög meðvituð um að það þurfi að vera öryggi við matvælaframleiðslu geri ég ráð fyrir því að við séum öll sammála um að það fyrirkomulag sem viðgengist hefur hér öldum saman sé eitthvað sem við viljum halda í heiðri.

Þegar við rekumst á sérkennilegar reglur og framfylgd þeirra höfum við stundum þann sið að kenna útlendingum um, ef ekki eftirlitsaðilum, og í þessu sambandi oft og tíðum Evrópusambandinu. Nú ætla ég að gera undantekningu á því sem ég geri oftast, nú ætla ég að leggjast í litla vörn fyrir Evrópusambandið. Við þekkjum það frá Evrópusambandinu, ég og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að þó að ýmislegt ljótt megi um það samband segja hefur það haft skilning á því, eins og við þekkjum frá útlöndum, að opna möguleika á framleiðslu og sölu á heimatilbúnum vörum og örugglega ekki gert þær ströngu kröfur sem við gerum almennt um matvælaframleiðslu þegar slíkir hlutir eiga í hlut.

Við sjáum í greinargerð og athugasemdunum við lagafrumvarpið að þar er vísað í tiltekna reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins þar sem í raun er verið að opna á þann möguleika að setja slíkar sérreglur sem mælt er fyrir með þessari löggjöf.

Ég sé að frumvarpið er aðeins viðurhlutameira en það sem ég hef gert hér að umræðuefni. Ég vísaði kannski meira til hluta eins og starfsemi frjálsra félagasamtaka og góðgerðarsamtaka sem eru að reyna að afla fjár til nauðsynlegrar starfsemi sinnar. En gengið er lengra, hæstv. ráðherra er gefin heimild til að víkja frá ákvæðum laga sem snúa að afhendingu frumframleiðsluvara í litlu magni beint til neytenda. Hér er greinilega verið að opna og gera þjálla allt fyrirkomulag sem lýtur að átaki sem kallað hefur verið Beint frá býli. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að það mál var mjög til umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þegar við ræddum um matvælalöggjöfina. Innan nefndarinnar var mikill áhugi á því að gera þá starfsemi þannig úr garði að hún væri eins góð og þjál eins og kostur væri án þess að við kollvörpuðum öllum hugmyndum manna um matvælaöryggi í þeim skilningi að öðru leyti.

Ég sé að í síðari b-lið er kveðið á um að hæstv. ráðherra fái heimild til að víkja frá ákvæðum laganna þegar um er að ræða framleiðslu á matvælum með aðferðum sem hefð er fyrir hérlendis. Í greinargerð og athugasemdum við frumvarpið er sérstaklega nefnd vinnsla eins og reyking á kjöti með taði og vinnsla á hákarli og fiski. Það finnst mér ágætt vegna þess að það er starfsemi sem við viljum að sé til staðar og við sem erum bæði áhugasöm um og viljum borða reykt kjöt, ekki síst beint frá bændunum, og einnig hákarl og harðfisk, fögnum því að hér er gefin undanþága frá reglunum.

En ekki er allt einfalt í lífinu, slíkar undanþágur kunna að vekja upp spurningar. Ég geri ráð fyrir því að við samningu frumvarpsins hafi menn horft til minni framleiðslu, t.d. til karla sem verka hákarl í hjallinum hjá sér. Það er allur gangur á því hvernig gengur að fá hákarl og menn koma og fara í þessu, eins og menn þekkja, þó að aðrir hafi nú sem betur fer getað stundað þá vinnu lengi og gert það með góðum og aðdáunarverðum árangri sem ég þakka sem neytandi fyrir. Það sama á við um harðfiskinn. Það eru til harðfiskverksmiðjur sem framleiða harðfisk.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í þessu sambandi, án þess að ég vilji þvæla málið eða gera það óþarflega flókið: Hvernig horfir það við í þessu sambandi? Í sambandi við fiskinn er líklega eingöngu verið að tala um hjallaþurrkun. Við erum væntanlega ekki að tala um loftþurrkun þá sem á sér stað í fyrirtækjum sem eru sérútbúin í þessu sambandi, þau mundu eftir sem áður trúlegast þurfa að lúta þessum lögum og ekki geta kallað á slíka undanþágu frá hæstv. ráðherra. Sama á væntanlega við um reykingu á kjöti með taði. Við erum væntanlega eingöngu að vísa til þeirrar heimaframleiðslu sem löggjafinn hefur talað um að yrði efld hérna, en ekki almennrar verksmiðjuframleiðslu.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, lýsi ég því yfir að ég er mjög jákvæður fyrir frumvarpinu. Ég vil hins vegar skoða í þessu samhengi það frumvarp sem hv. 3. þm. Suðurkjördæmis gerði grein fyrir áðan og þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram. Mér finnst sjálfsagt að skoða það tæknilega hvernig þessi mál geta rímað saman. Ég held að hugsunin á bak við þetta sé hin sama sem er að stuðla að því að sú hefðbundna starfsemi sem ég geri ráð fyrir að við viljum öll að sé við lýði, haldi áfram og jafnframt, sem er stefnumarkandi í frumvarpinu, að styðja við frumframleiðslu í litlum mæli til almennings á borð við heimareykingu á kjöti, aðra úrvinnslu á kjöti eða öðrum vörum, reykingu á laxi eða silungi og sömuleiðis harðfiskverkun og hákarlaverkun og slíka hluti. Ég tek undir að við þurfum að tryggja að slík framleiðsla haldi áfram hér á landi.