140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

matvæli.

138. mál
[12:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna og við deilum þeim sjónarmiðum sem þarna eru höfð að leiðarljósi og ætlunin er að ná. Ég tek undir orð hv. þingmanns um að þetta er hluti af menningu þjóðarinnar, staðbundinni menningu sem við þurfum líka að hafa í heiðri og rækta. Seinni b-liður 1. gr. frumvarpsins kveður á um að heimaframleiðsla eða staðbundin framleiðsla á tilteknum mat eða matargerðum og meðferð á mat sem geti átt langa hefð að baki. Við erum einmitt að laða það fram, ekki bara okkur til ánægju sem finnst gaman að borða þennan mat, heldur er það hluti af þeirri ferðaþjónustu sem við erum að byggja upp, þ.e. menningar- og matartengdri ferðaþjónustu. Hv. þingmaður minntist á átakið Beint frá býli sem ég tel að sé eitt mesta og besta átak sem átt hefur sér stað til að samþætta menningu, matarhefðir og ferðaþjónustu og dýpka þannig dýpka ímynd Íslands hvað þetta varðar.

Ég þakka fyrir góðar undirtektir við frumvarpið. Ekki er gert ráð fyrir að undantekningarnar taki til stærri verksmiðja eða framleiðslustaða þar sem er í hæsta máta eðlilegt að öll starfsleyfi séu fyrir hendi.

Ég treysti því að hv. atvinnuveganefnd taki málið til meðferðar á jákvæðan og öruggan hátt og að það verði afgreitt sem fyrst af hálfu hv. Alþingis.