140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[12:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýrslu verðtryggingarnefndar er aðeins farið í gegnum sögu verðtryggingarinnar, lagaumhverfið og bakgrunn þess að ákveðið var að taka hana upp á sínum tíma. Þar er farið í gegnum þær breytingar sem þegar er búið að gera, eins og t.d. afnám verðtryggingar á launum en líka er einmitt bent á að það hafi verið gerðar að mig minnir alla vega þrjár breytingar á því hvernig vísitalan er reiknuð. Ég held að það hafi verið eitt af helstu baráttumálum Sigtúnshópsins á sínum tíma að gera vísitöluna réttari og líka að auðvelda fólki að greiða af lánum sínum.

Ég vil líka taka undir ákveðna áherslu sem kemur fram í þessari tillögu um mikilvægi þess að skila öllu svigrúmi bankanna áfram. Hvort það er akkúrat leiðin sem er hér er nefnd mundi ég vilja skoða betur. En það er algjörlega krafa samfélagsins að það svigrúm sem bankarnir fengu með afskriftum þarna á milli fari áfram til heimilanna og fyrirtækjanna, því að það er eitthvað sem okkur munar öll um til framtíðar.

Það er mjög óþægilegt að sjá í gögnunum sem þingmenn hafa fengið varðandi fyrirspurnir um hversu mikið hafi verið afskrifað af lánasöfnunum það ósamræmi sem virðist vera á milli svara hjá mismunandi ráðuneytum og því sem kemur fram í skýrslunni hjá eftirlitsnefndinni. Það er því mjög brýnt að vinnuhópurinn sem verið er að tala um á vegum forsætisráðherra fari sem allra fyrst af stað og reynt verði að gera þá vinnu eins gagnsæja og hægt er þannig að við fáum réttar tölur.