140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[12:44]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ég er komin hingað til þess að fagna þessu útspili Hreyfingarinnar, útspili sem þau kalla plan R.

Frú forseti. Geturðu beðið um þögn í salnum? (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Hreyfingin kallar það plan R vegna þess að þetta er plan réttlætis. (Gripið fram í: Plan R, …?) Það er náttúrlega ástæða til að lyfta því fram að í samfélaginu hefur átt sér stað mikið óréttlæti, ekki síst í gegnum þau skuldaúrræði sem innleidd hafa verið og áttu auðvitað fyrst og fremst að leiðrétta óréttlæti en urðu til þess að auka á óréttlætið og þar með misskiptinguna í samfélaginu, því miður.

Ef við förum bara í gegnum þau skuldaúrræði sem hafa verið innleidd er fyrst að nefna greiðslujöfnun sem helmingur heimila þáði að fara í og felst í að ekki er lengur greitt í samræmi við hækkun verðlagsvísitölu heldur greiðslujöfnunarvísitölu sem á þessu ári hefur hækkað meira en verðlagsvísitalan þannig að greiðslubyrði heimilanna hefur þyngst á þessu ári. Ekki nóg með það, heldur þýðir greiðslujöfnunin fyrir árið 2010 aukna skuldabyrði heimila líka vegna þess að sá hluti sem ekki var greiddur af hækkun láns samkvæmt verðlagsvísitölu bættist við höfuðstólinn. Greiðslujöfnun er því fyrir mörg heimili orðin að einhvers konar skuldafeni.

Síðan er þá að nefna 110%-leiðina sem við höfum rætt nokkrum sinnum í þingsal. Hún var hugsuð til þess að þrýsta á fjármálafyrirtækin að afskrifa tapaðar skuldir, að vísu ekki allar tapaðar skuldir, heimilin áttu að taka á sig þessi 10% umfram verðmæti eignarinnar. Eftirlitsnefndin hefur komist að því að 110%-leiðin skapi handahófskennt óréttlæti sem er mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórn sem segist ætla að hafa jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.

Ástæðan fyrir því að þessi leið hefur skapað enn meira óréttlæti og misskiptingu er sú að fólk fær mismikið afskrifað eftir því hvar það tók lánið. Síðan er þessi leið ekki lengur opin fyrir heimili. Mig minnir að það hafi verið 1. júlí sem umsóknarfresturinn til að fara með skuldir sínar í gegnum 110%-leiðina leið undir lok en það er fullt af heimilum sem munu fljótlega skulda meira en 110% og þau eiga þá ekki kost á þessari leið.

Á meðan við erum með verðtrygginguna verður auðvitað nauðsynlegt að hafa leið sem tryggir að fólk skuldi ekki meira en það á í eign sinni því að við slíkar aðstæður stefnir heimilið í gjaldþrot eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir benti á, að 100%-leiðin væri auðvitað ekkert annað en gjaldþrot.

Það var innleitt enn eitt skuldaúrræðið sem á að gera gjaldþrot mannlegri, fyrning krafna á tveimur árum, sem sagt eftir gjaldþrot, allar skuldir eru afskrifaðar tveimur árum eftir gjaldþrot ef kröfuhafar fara ekki í dómsmál. Ég tel að þetta hafi verið eitt besta skuldaúrræðið sem hingað til hefur verið innleitt, jafnvel þó að gjaldþrot sé alltaf mjög þungbært. En það er hægt að varna því að fólk þurfi að fara í gjaldþrot til að losna undan skuldum með því að innleiða lyklafrumvarpið, eins og meðal annars Sjálfstæðisflokkurinn hefur núna loksins lagt til, tveimur árum eftir að lyklafrumvarpið kom fram. Innleiðing lyklafrumvarpsins mun þýða að fólk getur skilað inn lyklunum að eign sinni og þá fá kröfuhafarnir eignina sem stendur á bak við lánin. Síðan er mikilvægt að fólk haldi eftir eignum í samræmi við það sem bankarnir leyfa fólki að halda eftir þegar það fer í 110%-leiðina, þ.e. að það geti haldið eignum upp að ákveðnu hámarki. Þegar fólk á eignir umfram þetta hámark kemur það til frádráttar á niðurfærslunni í 110%-leiðinni hjá Landsbankanum.

En það er þörf frekari aðgerða varðandi skuldavanda heimilanna. Við þurfum að viðurkenna það, og þá er ég að vísa til bankanna og Íbúðalánasjóðs, að tapaðar skuldir eru tapaðar skuldir og þær þarf að afskrifa niður að 100% af verðmæti eignanna sem eru á bak við skuldirnar. 110%-leiðin fer í áttina að þessu en dugar ekki til og er ekki fyrir alla, hún er ekki fyrir þá sem fara yfir 100% skuldsetningu á næstu mánuðum.

Síðan þarf auðvitað að fara fram almenn leiðrétting á forsendubrestinum sem hefur orðið frá 1. janúar 2008. Það er hægt að gera með því meðal annars að taka öll lánasöfnin, skrifa þau niður um 20% eins og Framsókn lagði til á sínum tíma. Þar sem þau hafa hækkað um 40% taka heimilin á sig annan helminginn af verðlagshækkuninni og fjármagnseigendur hinn. Þegar búið er að færa lánasöfnin niður um 20% þarf að breyta þeim í lánasöfn eða húsnæðislán eins og eru við lýði á Norðurlöndunum með föstum vöxtum sem eru þó breytanlegir eftir eitt, þrjú, sex ár. Fólk getur þá valið hversu lengi það vill hafa fasta vexti á láninu.

En þetta er ekki nóg hér á landi. Eins og Hreyfingin leggur til þarf líka að setja þak á raunvextina sem eru á fasteignalánunum. Raunvextir á fasteignalánum eru þeir hæstu hér á landi ef við berum okkur saman við Evrópuþjóðirnar, eru um 5% og það þarf að koma þeim niður í 2–3%. Vegna þess að bankamarkaðurinn einkennist af fákeppni þarf einfaldlega ríkisvaldið til til að setja þetta þak með löggjöf, það þýðir ekki að bíða eftir samkeppni því að á fákeppnismarkaði verður aldrei eðlileg samkeppni.

Bankakerfið, frú forseti, sem nú hefur verið endurreist var því miður endurreist þannig að samið var um að allt að 80% af afslættinum sem fyrst var gefinn af eignum gömlu bankanna þegar þær voru færðar yfir í nýju bankana færu aftur til kröfuhafanna sem vildu eignast hlut í nýja bankakerfinu. Þetta finnst mér mjög alvarlegur gjörningur og skrifast á hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra sem sáu um að ganga frá endurreisn bankakerfisins með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta form á endurreisninni, það að endurreisa bankakerfið með eignaraðild kröfuhafa sem hefur verið lofað að fá til baka þann afslátt sem þeir tóku á sig, þýðir auðvitað að bankarnir ganga mjög hart fram í því að endurheimta eignir sínar. Þessi harka, sem meðal annars birtist í því að gengið er að eignum foreldra sem hafa lánað börnunum sínum veð í eign sinni til að þau gætu eignast þak yfir höfuðið, veldur miklum pirringi í samfélaginu og fólk getur ekki hugsað sér að búa við þetta lengur, sérstaklega ekki þegar síðan koma fréttir af miklum afskriftum hjá einstökum fyrirtækjaeigendum. Öll umræða eins og birtist í þessu frumvarpi Hreyfingarinnar er því af hinu góða. (Forseti hringir.) Því miður situr hér bara einn þingmaður Samfylkingarinnar og hlustar á þessa umræðu. (Gripið fram í: Tveir.) Tveir. (Forseti hringir.)