140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[12:56]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að skiptast á skoðunum við hv. þingmann Samfylkingarinnar um skuldavandann. Hvað varðar það að skýrsla eftirlitsnefndarinnar sé ekki áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og félags- og tryggingamálanefnd er ég algjörlega ósammála því vegna þess að ef ég man rétt var það félags- og tryggingamálanefnd sem setti skilyrði í lögum sem þurfti að setja til að Íbúðalánasjóður gæti boðið upp á 110%-leiðina. Þessi skilyrði reyndust svo þröng vegna þess að hv. félags- og tryggingamálanefnd var svo hrædd um að einhver fengi aðeins of mikið afskrifað að bankarnir sáu fram á að það tæki mörg ár að klára málefni þeirra heimila sem sóttu um 110%-leiðina. Það var gert ráð fyrir að 15 þús. heimili mundu sækja um þetta úrræði en það voru ekki nema 11 þús. og bara nokkur þúsund heimili eru búin að fá þessa 110%-leiðréttingu.

Af því að hv. félags- og tryggingamálanefnd setti svo þröng skilyrði fóru bankarnir í að bjóða upp á sín eigin skilyrði sem eru þá mismunandi á milli þeirra.

Frú forseti. Hvað varðar verðtrygginguna hef ég mikinn áhuga á að svara spurningum hv. þingmanns um hana. Verðtryggingin er í raun og veru bara pólitísk ákvörðun. Sum lönd innan Evrópusambandsins hafa til dæmis tekið upp verðtryggingu við útgáfu ríkisskuldabréfa þannig að það er ekkert náttúrulögmál að Íslendingar þurfi að búa við verðtryggingu. Ég tel að við munum ná stöðugleika ef við afnemum verðtrygginguna en ég mun halda áfram að svara þessari spurningu í næsta svari mínu.