140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[12:58]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona sannarlega að þingmaðurinn leitist við að svara spurningunni um verðtrygginguna, þ.e. hvernig hún sjái fyrir sér að hægt sé að koma þessu við og að hún svari því meðal annars hvert mat hennar sé á afleiðingum þess á sjálft hagkerfið. Af einhverri ástæðu hefur verið til staðar tregða við að afnema verðtrygginguna. Það hlýtur að vera vegna þess að menn óttast afleiðingar þess fyrir hagkerfið og stöðu fjármálastofnana. Það væri ágætt að fá með einhverjum hætti inn í umræðuna hverjar þær afleiðingar gætu orðið og hvernig þá sé hægt að bregðast við þeim.

Er þingmaðurinn að tala um að það sé hægt að gera þetta í áföngum? Er hugsanlegt að hafa einhverja aðlögun eða gefa sér eitthvert tímasvigrúm ef af yrði? Það er ekki bara pólitísk ákvörðun að afnema verðtryggingu, það eru auðvitað einhverjir praktískir hlutir sem hafa þarf áhyggjur af varðandi það að afnema það fyrirkomulag sem komið hefur verið á.

Varðandi hins vegar þetta með framkvæmd bankanna á aðgerðum vegna skuldavanda heimilanna setti þingið lög og bönkunum voru settar ákveðnar starfsreglur eða rammi eða skilyrði um það hvernig þeir gætu staðið að verki. Nú er komið í ljós að framkvæmdin er þannig að hún hefur meðal annars kallað fram hið margumtalaða handahófskennda óréttlæti sem þarf þá virkilega að greina af hverju stafar og ekki horfa til fortíðar í því heldur að koma þá með raunhæfar tillögur um það hvernig sé hægt að bæta úr því.