140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var merkilegt að fylgjast með fagnaðarlátum stjórnarliða þegar fyrir lá formleg ákvörðun Alcoa um að hætta við uppbyggingu álvers á Bakka. Mikið ábyrgðarleysi einkennir slík viðbrögð þegar öflugt erlent fyrirtæki hættir við svo mikla fjárfestingu í atvinnulífi okkar á þessum erfiðu tímum. Fjárfestingu sem búið er að leggja í mikla fjármuni og annan undirbúning, fjárfestingu sem gaf mörgum væntingar sem nú eru orðnar að vonbrigðum. Á fundi atvinnunefndar í morgun með heimamönnum og Landsvirkjun lýstu allir ákveðnum vonbrigðum með niðurstöðuna, nema ef vera skyldi nokkrir stjórnarþingmenn. Miðað við viðbrögðin er ekki hægt annað en að taka undir með heimamönnum þegar fullyrt er að ástæðan sé pólitísk, afleiðing stefnu núverandi ríkisstjórnar. Heimamenn margir telja sig svikna, bæði af stjórnvöldum og Landsvirkjun, telja hreinlega að hluti af orkunni á svæðinu sé hugsaður til að mæta öðrum verkefnum, jafnvel annars staðar. Þá gagnrýna þeir Landsvirkjun harkalega fyrir skort á upplýsingum um hvernig viðræður við aðra væntanlega orkukaupendur standa. Af öllum þeim áhugasömu aðilum sem sagðir eru í viðræðum við Landsvirkjun hafa heimamenn aðeins verið kynntir fyrir einum.

Ég spyr því hæstv. iðnaðarráðherra hvort henni sé kunnugt um að búið sé að gera formlegar viljayfirlýsingar við einhvern væntanlegan orkukaupanda. Ef svo er, hyggja þeir aðilar á uppbyggingu á Bakka eða annars staðar og um hvað mikla orkuþörf er að ræða hjá þeim?

Ljóst er að forsvarsmenn Landsvirkjunar verða að breyta vinnubrögðum sínum og leggja sig fram um að ávinna sér traust heimamanna. Þeir eiga mestra hagsmuna að gæta og eru örugglega þess verðugir að þeim sé sýnt traust, eins og fram hefur komið. Allt bendir til að hér sé um pólitísk afskipti að ræða, að hér ráði ferð stefna Vinstri grænna um „eitthvað annað“ í uppbyggingu atvinnutækifæra. Kosningaloforð þeirra sem þeir taka reyndar misalvarlega, var stóriðjustopp, stoppa það sem hægt var að stoppa. Dyggilega studdir af Samfylkingunni hefur þeim orðið ágengt. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 að hann réði yfir Landsvirkjun:

„Ríkið á hana. Þannig að það er náttúrlega ekki svo að það sé ekki hægt að hafa áhrif á þessi mál. Að sjálfsögðu ekki.“

Þetta voru orð hæstv. fjármálaráðherra.

Er það ekki þetta sem hefur gerst á Bakka, með sömu áherslum og vinnubrögðum hæstv. fjármálaráðherra í málefnum álvers í Helguvík og kaupum Magma á HS Orku? Pólitísk fingraför ríkisstjórnarinnar eru um alla veggi þegar kemur að þeim mikilvægu verkefnum. Ég spyr ráðherra: Réði það ekki ferð þegar viljayfirlýsingin var ekki endurnýjuð við Alcoa 2009 og niðurstaða verkefnisstjórnarinnar frá vori 2010 var hunsuð?

Í ræðu sinni þann 30. maí síðastliðinn hafnar iðnaðarráðherra pólitískum afskiptum af málinu, eins og hún hefur reyndar margoft gerð varðandi Helguvík. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Það hefur verið málinu til heilla að um það er ekki samið hér í þingsölum, heldur er verið að semja um það þar sem samningar eiga að fara fram, á millum orkusala og orkukaupa. Þess vegna gengur þetta verkefni vel, vil ég meina, vegna þess að af því hafa ekki verið of hörð pólitísk afskipti.“

Þetta voru orð hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé sátt við þá pólitísku stefnu hæstv. fjármálaráðherra sem lesa má úr ummælum hans hér að framan og hvort þau feli í sér það sem hún kallar hörð pólitísk afskipti. Hefur hann með afskiptum sínum óeðlileg áhrif á málið, eða eru viðbrögð hans innan eðlilegra marka að hennar mati?

Hástemmdar yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra í þessu máli eru margar. Þann 22. mars síðastliðinn sagði hún, með leyfi forseta:

„Okkar bíður mikið verk við að undirbúa samfélagið fyrir stórfellda atvinnuuppbyggingu og eins og ég segi er ég gríðarlega bjartsýn á að þarna muni draga til tíðinda innan skamms.“

Þann 3. mars sagði hæstv. iðnaðarráðherra, með leyfi forseta:

„Landsvirkjun stendur í samningaviðræðum við sex til átta mismunandi aðila.“

Ef ég man rétt var einnig nefnt að þetta ættu helst að vera tíu aðilar. Nú kemur fram hjá forstjóra Landsvirkjunar að þeir séu fimm. Eru hinir dottnir úr skaftinu líka? Hver er staðan í þessu máli? Hver er staðan í viðræðunum? Eins og ég sagði áðan hefur aðeins einn erlendur aðili verið kynntur til leiks gagnvart heimamönnum, sem þó eru meðeigendur í því fyrirtæki sem hér um ræðir, og þeir bíða og hagsmunirnir eru miklir þar.

Virðulegi forseti. Okkar bíður mikið verk við að koma atvinnulífi okkar af stað svo mannlíf megi fara að dafna í samfélagi okkar að nýju. Það er slæmar fréttir í öllu tilliti að þessi möguleiki sé úr sögunni, að minnsta kosti á meðan ekkert annað er í hendi. Fögnuður stjórnarliða mun breytast í slæma timburmenn ef fram heldur sem horfir. Hér er farið út af borðinu með verkefni sem hafa skapað um 3 þús. störf á byggingartímanum og hátt í þúsund störf til framtíðar. Óvissan er algjör. Ég ætlast til að ráðherra gefi okkur svör við þeim spurningum sem ég hef borið fram. Hæstv. ráðherra verður að gefa okkur eitthvað annað en loftbólukenndar yfirlýsingar um hver staðan raunverulega er. Við þessi tímamót skuldar hún heimamönnum fyrir norðan og okkur á Alþingi frekari skýringar.