140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra endaði ræðu sína á því að segja: Hættum að fylkja okkur á bak við einstök fyrirtæki þegar kemur að atvinnuuppbyggingu fyrir norðan. Það má til sanns vegar færa. Er ekki rétt þá að snúa dæminu við og spyrja: Hvers vegna hafa menn lagst gegn áformum einstakra aðila um að byggja upp atvinnutækifæri fyrir norðan, eins og ríkisstjórnin hefur gert í þessu máli? Það hefur ítrekað komið fram hjá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar að slík starfsemi sé ekki æskileg á þessu svæði. Menn skulu því kalla hlutina þeim nöfnum sem þeir nefnast í raun og veru. Það hefur legið fyrir í mörg ár að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur viljað gera allt til að koma í veg fyrir að af þessari uppbyggingu yrði. Ef við horfum á feril málsins er í mörgum tilfellum hægt að nefna að vilji stjórnvalda hefur því miður verið takmarkaður til að byggja upp atvinnu með þessum hætti á Bakka við Húsavík.

Ég vil samt segja að við þurfum að horfa fram á veginn. Orkan er til staðar og nú er komið að því að menn standi með Þingeyingum um þá atvinnuuppbyggingu sem á að eiga sér þar stað. Við höfum hlustað á endalausar yfirlýsingar um stórfellda atvinnuuppbyggingu við Húsavík og búið er að vekja heilmiklar væntingar. Ég vil meina að á bak við þær yfirlýsingar hafi verið ansi takmarkaður stuðningur, að minnsta kosti gagnvart sumum verkefnum sem hafa verið þar í vinnslu.

Ég vil hvetja hæstv. iðnaðarráðherra til að hún og við sýnum Þingeyingum þann stuðning að staðið verði við þá viljayfirlýsingu sem undirrituð var gagnvart sveitarfélögum á svæðinu, að staðinn verði vörður um innviði samfélagsins í Þingeyjarsýslu, rekstur heilbrigðisstofnunarinnar, lögreglunnar og fleira mætti nefna; að ríkisstjórnin fari að (Forseti hringir.) sýna í verki að hún styðji Þingeyinga í þeirri uppbyggingu sem þar þarf að eiga sér stað í nánustu framtíð.