140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[14:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það að Alcoa hætti við eru engin endalok heldur vonandi upphafið að nýjum tímum í að verðleggja orkuna okkar á raunvirði. Alcoa sýnir alvarlegan hroka og saga fyrirtækisins víðs vegar um heim er ekki falleg. Nú sýnir það sitt rétta andlit hérlendis með hótunum um málsóknir þó að það hafi aldrei sýnt neina raunverulega staðfestu gagnvart Bakkaverkefninu. Ég hvet þingmenn sem ekki nú þegar hafa séð Draumalandið eindregið að horfa á þá mynd til að sjá hvernig Alcoa vinnur og af hverju við heyrum þessar háværu raunaraddir. Í raun eru þetta alls ekki endalokin fyrir uppbyggingu á Húsavík eða Bakka heldur þvert á móti upphafið að nýjum tímum. Ég vona að þingheimur sameinist um að horfast í augu við veruleikann í staðinn fyrir að draga hér upp sorgarmynd af einhverju sem í raun og veru ætti að vera fagnaðartímar.