140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[14:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú eigum við að fagna, segir hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: Ha?) Nú eigum við að fagna (Gripið fram í: Hef ég …?) af einhverju tilefni, að pólitísk fingraför séu alls ekki á málinu. Eru það ekki pólitísk fingraför að málið var sett í sameiginlegt mat (Gripið fram í.) og þetta átti að tefja málið um tíu daga en það reyndist vera á þriðja ár? Eru endurnýjaðar viljayfirlýsingarnar ekki dæmi um að það eru pólitísk afskipti að neita endurnýjun á því? Eru yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra ekki pólitísk fingraför?

Hvað var gert með niðurstöðu vinnuhópsins, NAUST-hópsins, sem skilaði af sér á vordögum 2010? Það hefur ekkert heyrst. Það kom bréf til Alcoa eftir það og ég veit ekki til þess að nokkrar viðræður hafi átt sér stað við þá aðila.

Hér er gefið í skyn að eingöngu hafi verið hugsað um þetta stórfyrirtæki og að ekki hafi verið alvara á ferðum hjá því þegar viðræðurnar eru búnar að standa í sex ár og búið að setja í þetta hátt í tvo milljarða. Er það ekki alvara? Var ekki alvarleiki i yfirlýsingum stjórnenda Alcoa í febrúar um að fyrirtækið vildi halda hér áfram? Og er það ekki rétt sem hefur komið fram hjá forsvarsmönnum sveitarfélaganna fyrir norðan að allan tímann hafa þeir verið í viðræðum við aðra aðila? Það hefur engin einokun Alcoa verið á þessari raforku. Það er búið að leita fanga annars staðar allan tímann.

Við eigum að líta sem víðast þegar við treystum undirstöður íslensks samfélags, en við getum ekki fagnað þegar svona stór aðili hverfur á braut með þau miklu áform og væntingar sem voru því fylgjandi þegar ekkert annað er í hendi.

Hv. þm. Jónína Rós sagði: Nú vöknum við við það að það á að gera hlutina öðruvísi. Þetta hefur heyrst hjá hv. stjórnarþingmönnum í þessu máli. Það er eins og að þar á bæ hafi verið löngu búið að ákveða að þetta yrði niðurstaða máls, að engin innstæða hafi verið fyrir þeim yfirlýsingum að Alcoa væri alvöruviðsemjandi í þessu máli af hálfu Íslendinga. Þegar hv. þingmenn koma hér upp og gera lítið úr þessum fyrirtækjum með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði hér áðan felast auðvitað mjög alvarleg skilaboð í því til erlendra fjárfesta sem horfa til landsins. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Hér voru miklar væntingar, þær eru orðnar að miklum vonbrigðum. Hæstv. ráðherra skuldar okkur meiri skýringar en þær loftbóluskýringar og þær draumsýnir (Forseti hringir.) sem hún hefur haft í þessu máli fram að þessu.