140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um leiðréttingar á skuldamálum heimilanna. Það er kannski rétt að það komi fram í upphafi að í samhengi við þá umræðu sem átti sér stað hér á undan mundi leiðrétting á skuldum heimilanna gera miklu meira ein og sér til að örva hagvöxt en nokkur stóriðjuuppbygging. Íslenskt efnahagslíf er í spennitreyju og er staðnað. Það verður mjög erfitt að koma því af stað aftur nema með gagngerum róttækum aðgerðum sem gagnast öllum í samfélaginu.

Þessi tillaga er í fullu samræmi við stefnuskrá Hreyfingarinnar og hefur verið lögð fram áður en ekki fengið afgreiðslu. Þetta er mikilvægasta málið sem blasir við í samfélaginu í dag, það er sá algeri forsendubrestur sem varð við lántökur heimila landsins til þess að koma sér þaki yfir höfuðið, hann leiddi til þess með hruninu að stór hluti heimila á Íslandi rambaði á barmi gjaldþrots og þau sem ekki voru komin yfir línuna eru rétt fyrir neðan hana og munu ekki ná að rétta úr kútnum, jafnvel ekki nokkurn tímann.

Það glataðist gullið tækifæri á sínum tíma þegar sett var á fót nefnd á vegum stjórnvalda, sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, frá Samfylkingunni, áttu meðal annars sæti í, um að leita leiða til að draga úr áhrifum þess að hafa öll lán verðtryggð við gengisfall krónunnar sem átti sér stað í hruninu. Það var alveg borðliggjandi á þeim tíma að ef neysluverðsvísitalan og tenging hennar við lán heimilanna hefði verið aftengd, stæðum við ekki frammi fyrir þessum vanda enn í dag nærri þremur árum síðar. Þessi nefnd og það fólk sem þar var hefur sennilega gert einhver verstu efnahagslegu mistök sem gerð hafa verið hér á Íslandi frá lýðveldisstofnun og er erfitt að leggja mat á það hvað það mun kosta samfélagið þegar upp verður staðið, en kostnaðurinn hingað til hefur verið gríðarlegur. Á þessum tíma og vegna þessarar verðtryggingar hafa meðal annars 150 milljarðar safnast til fjármagnseigenda eingöngu vegna verðbóta á húsnæðislánum heimilanna. 150 milljarðar sem þessir eigendur fjármagnsins gerðu ekki ráð fyrir í áætlunum sínum hvort eð er, en öllum tilraunum almennings og sumra flokka hér á Alþingi til að leiðrétta þessa millifærslu og færa hana aftur til heimilanna, hefur verið hafnað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og í staðinn hefur verið sett á fót fyrirbærið umboðsmaður skuldara, sem hefur gert frekar lítið í málinu, enda kannski ekki á færi hans að gera það.

Festing raunvaxta á verðtryggðum lánum er líka til umræðu í þessari tillögu og lögð til, það væri einfaldlega mjög eðlileg leið einmitt vegna verðtryggingarinnar sjálfrar. Að vera með slíka ofurvexti á verðtryggðum lánum eins og viðgengist hafa hér á Íslandi er ekkert annað en okurlánastarfsemi vegna þess að lánveitendur verðtryggðra lána eru tryggðir gegn áhættu. En vaxtastig almennt á að endurspegla þá áhættu sem tengist lánastarfseminni og vextir á verðtryggðum lánum erlendis eru yfirleitt í kringum 1%, í hæsta lagi 2%, hér er farið mjög hóflega af stað í þessari tillögu og lagt til að þeir verði að hámarki 2–3%. Við lítum svo á að þetta sé jafnframt fyrsta skrefið í algeru afnámi verðtryggingar, því að verðtrygging er eitthvað sem hefur gert samfélaginu mikinn skaða.

Það er líka lagt til að lög 151/2010 verði felld brott. Það er ein af þessum verstu lagasetningum sem Alþingi hefur nokkurn tímann samþykkt, meðal annars neyddu þau skuldara til að samþykkja allt að 20% vexti á lánum sínum þegar búið var að færa þau yfir í íslenskar krónur. (Gripið fram í.) Það gefur augaleið að það hefði enginn maður með fullu viti tekið sér lán á þeim vaxtakjörum ef hann hefði átt valkost. En svona hefur nú ríkisstjórnin komið aftan að fólki í þessum málum og gert því mikinn grikk.

Ef maður skoðar málið eftir á og reynir að horfa yfir farinn veg frá hruni blasir það nánast við að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til hjálpar heimilunum séu í raun frekar aðför að skuldugum heimilum og þjónkun við fjármagnseigendur. Flöt leiðrétting á skuldum heimilanna, með því að flytja verðtrygginguna í samræmi við vísitölu aftur til ársbyrjunar 2008, sem efnahagsaðgerð mundi örva hagvöxt meira á Íslandi en nokkuð annað. Einkaneysla mundi aukast og rjúka upp og þar með verslun, þjónusta og framkvæmdir í landinu. Það er einfaldlega miklu einfaldari, skilvirkari og ódýrari leið en þurfa að taka þátt árum saman í karpi viðlíka því og fór hér fram áður en ég hóf mál mitt um álversframkvæmdir og stóriðju hingað og þangað um landið sem mun vegna stærðar efnahagsvandans ekki vera nema dropi í hafið. Ekki er hægt að skattleggja sig eða skera sig niður úr þessari kreppu. Ekki er heldur hægt að rjúka af stað með einhverjar risastórar framkvæmdir til að ná upp hagvexti, það bara dugir ekki til. Það þarf meira til og það þarf almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna.

Forsendubresturinn var algjör. Fólk sem var hvatt til að taka þessi lán alveg fram á síðasta dag, fram til október 2008, var hvatt til þess af bönkunum sem samhliða því voru að taka gríðarstóra stöðu gegn íslensku krónunni með afleiðusamningum. Það var hvatt til þess líka af hálfu stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar sem þá sat, sem vissi þó frá upphafi árs 2008 að bankakerfið mundi fara á hliðina áður en árið væri liðið. Þetta eru gríðarlega alvarlegir hlutir. Í mínum huga eru þetta einfaldlega afbrot gegn almenningi og afbrot gegn þjóðinni og er meðal annars ástæða þess að fyrrverandi forsætisráðherra Íslands er nú fyrir landsdómi með embættisfærslur sínar. Vonandi leiðir það ferli í ljós betur hvað gerðist og hverjir bera ábyrgð.

Það var hins vegar sorglegt og hefur verið sorglegt að heyra málflutning stjórnarsinna og málflutning hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í þessu máli þar sem hann vísar til þess að allar kvartanir fólks um óréttlæti í þess máli séu bara hjóm eitt, vegna þess að hér sé í gangi einhvers konar nauðsynleg samkeppni á fjármálamarkaði og þess vegna megi ekki fara út í samræmdar aðgerðir til hjálpar heimilunum vegna þess að það sé brot á samkeppnislögum. Samkeppnislögin tryggi að bankarnir keppist hver um annan þveran við það að bjóða sem bestan díl.

Ég ráðlegg hv. stjórnarsinnum einfaldlega að hafa samband við einhverja af þeim einstaklingum sem hafa átt í basli með að ná samningum við sinn banka og spyrja þá álits á því. Er rétt að vísa til þess að fjöldi þeirra hefur komið hér fyrir utan Alþingishúsið nú í haust, fyrst 1. október og síðan 3. október, til þess að reyna að ná tali af þingmönnum, en flestir þeirra héldu sig innan dyra.

Slíkur málflutningur sem hefur verið viðhafður, um að óréttlætið sér orsök samkeppni á bankamarkaði, er náttúrlega algjör uppgjöf af hálfu viðskiptaráðherra og algjör uppgjöf af hálfu ríkisstjórnarinnar í málinu og til háborinnar skammar að menn skuli reyna að fela sig á bak við slíkt. Það hefur einfaldlega aldrei verið til staðar almennileg samkeppni á Íslandi á fjármálamarkaði frekar en í fjölmörgum öðrum greinum og það hefur ekkert skánað frá því eftir hrun. Þannig að ef menn vilja og hafa einhvern áhuga á því að gera gangskör í því að leiðrétta skuldir heimilanna og koma efnahagslífinu í gang aftur með góðum rykk sem er auk þess byggður á réttlætishugmyndum, þá er samþykkt þessarar tillögu besta leiðin í þá veru og í þá vegferð.

Mig langar að hvetja þingið til að taka þessa tillögu einfaldlega til alvarlegrar skoðunar og þá nefnd sem fær hana til að afgreiða hana sem fyrst. Það eru þrjú ár frá hruni. Því lengra sem líður þeim mun fleiri tækifæri glatast og því erfiðara verður að komast úr sporunum á ný. Hættan er sú að við munum sitja hér uppi, ef til vill í áratugi, með andrúmsloft tortryggni og reiði sem verður mjög erfitt og leiðinlegt að búa við.