140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta yfirferð yfir málið, en það vantar í þetta ýmsa þætti. Maður kynni til dæmis að halda, þegar maður hlustar á hv. þingmann og les þessa tillögu, að bankar séu sparifjáreigendur, að þeir eigi fjármagnið. Það vill svo til að bankar eiga yfirleitt ekki sparifé. Bankar miðla peningum frá sparifjáreigendum til lántakenda og það að færa verðtrygginguna niður þýðir að bankar þurfa væntanlega að leiða það til sinna innlánseigenda sem reyndar eru ekki mikið verðtryggðir. Það sem vantar kannski inn í þetta líka er stærsti fjármagnseigandi í landinu sem eru lífeyrissjóðirnir, heimilin — það eru nefnilega heimilin sem eiga það fjármagn, eða ég tel alla vega svo vera. Menn borga þarna inn — hv. þingmaður hefur borgað í lífeyrissjóð — og þær inngreiðslur mynda það mikla fé, þannig að hann er fjármagnseigandi. Ef færa á vísitöluna niður þýðir það skerðingu á þessu fjármagni, öllu sem verðtryggt er, um svona 20–30%, ég hef ekki reiknað það nákvæmlega út. Hann ætlar sem sagt að taka af heimilunum þetta fé. Sama daginn og þetta yrði gert yrði að skerða lífeyri frá lífeyrissjóðunum, nema þeir eigi ekki að vera inni í þessu. Þannig að menn horfa ekki á uppruna fjárins sem alltaf er hjá heimilunum og virðast líta þannig á að féð komi úr bönkunum, að það sé guð almáttugur sem eigi það sem innlánseigandi. En fjármagnið kemur alltaf frá heimilunum, það eru heimilin sem fresta neyslu og spara.

Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað þann endann og hvaða merki hann er að gefa því fólki sem af frjálsum huga sparar, hvort það eigi ekki bara að hætta.