140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:19]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór einmitt yfir þessi mál sem hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um í ræðu minni hér áðan og vísaði til þess að stærstu eigendur húsnæðislána eru Íbúðalánasjóður, sem er í eigu ríkisins, og lífeyrissjóðirnir. Lífeyrissjóðirnir eru eins og hver annar fjármagnseigandi og þó að eignir þeirra séu dreifðar á félagsmenn eru það ekki eiginlegar eignir félagsmanna vegna þess að þær munu einfaldlega raungerast á mörgum áratugum.

Ég benti líka á það að vegna verðtryggingarinnar hefðu lífeyrissjóðirnir, sem eru eign almennings, fengið í sinn hlut yfir 150 milljarða eingöngu í verðbætur vegna verðbóta á húsnæðislánum frá hruni. Þetta eru peningar sem þeir gerðu ekki ráð fyrir í ávöxtunaráætlunum sínum, en hafa fengið þetta upp í fangið sem hvern annan gullpott. Það væri eðlilegasti hlutur í heimi að þessu fé verði einfaldlega skilað aftur til heimilanna.

Ég bendi á þær fjölmörgu kannanir sem hafa verið gerðar þar sem fólk hefur verið spurt: Hvort viltu frekar halda íbúðarhúsnæðinu þínu í dag, eða hugsanlega eiga peninga í lífeyrissjóði sem lífeyrissparnað eftir 40 ár? Svarið er undantekningarlítið og jafnvel undantekningarlaust á þann veg að fólk vill halda áfram að búa í húsunum sínum í dag, en fólkið hefur ekki sjálft umráð yfir lífeyrissjóðunum, þeim er stjórnað af atvinnurekendum í meiri hluta og fulltrúum verkalýðsfélaga í stjórnum lífeyrissjóðanna sem hingað til hafa ekki tekið hagsmuni félagsmanna fram fyrir hagsmuni atvinnulífsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)