140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að segja rétt áðan að það var alveg heilmikið af dæmum sem voru óeðlileg. Ég átti líka réttindi mín í lífeyrissjóði. Þau rýrnuðu. Sumir lífeyrissjóðir eru búnir að skerða lífeyrisréttindi hjá fólkinu sínu. Það er mjög óeðlilegt, vissulega. Það var svo margt sem gerðist í hruninu. Þetta gerðist út um allan heim líka að lífeyrissjóðir töpuðu gífurlegum fjármunum. Það voru erlendu eignirnar sem í plati hækkuðu upp stöðu lífeyrissjóðanna. Þessi kona er í séreignarsjóði. Ef hann hefði ekki verið með erlendar eignir hefur það ekki hjálpað til. Skuld hennar við sjóðinn hélt verðgildi sínu en lífeyrissjóðurinn, séreignarsjóðurinn, hefur þá tapað einhvers staðar annars staðar. Þetta er ekki eina eignin sem hann átti. Auðvitað er þetta mjög óeðlilegt.

Mér finnst líka mjög óeðlilegt að fólk sem átti hlutabréf, samanlagt 80 milljarða, mér finnst mjög óeðlilegt að þeir hafi gufað upp og horfið, þeir bara hurfu. Mér finnst það eiginlega enn þá óeðlilegra af því að sumt fólk tók lán til að kaupa hlutabréfin og tapaði hlutabréfunum en skuldar svo lánið. Mér finnst það líka mjög óeðlilegt, en svona er þetta. Þetta er það sem við erum að glíma við á öllum vígstöðvum. Við getum ekki einblínt bara á einn þáttinn, bara á skuldir heimilanna, verðtryggðar skuldir heimilanna sérstaklega, vegna þess að við þurfum að horfa á alla heildina.

Ef þetta gengi eftir sem hér er lagt til í þingsályktunartillögunni mundi það þýða að fjöldi manns sem þarf ekki á því að halda fengi lækkun á skuldum og skattgreiðendur borga brúsann, því að skattgreiðendur borga Íbúðalánasjóði. Og ef kröfuhafarnir eiga rétt á íslenska ríkið út af eignarréttarákvæðum borga skattgreiðendur það að sjálfsögðu líka. Þetta getur nefnilega orðið til þess að það myndast skaðabótaskylda gagnvart kröfuhöfum sem töpuðu heilmiklum peningum á Íslandi og tapa enn meira eftir þessa aðgerð.