140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stjórnarskipunarlög.

43. mál
[14:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að eins og stjórnarskrárbreytingar fara fram núna, með því að tvö þing samþykki breytingarnar og með kosningum á milli, tekur þjóðin ekki þátt í þeim breytingum, þjóðin tekur ekki afstöðu til stjórnarskrárinnar heldur kýs hún til þings. Ég held að stjórnarskrárbreytingar hafi sjaldnast verið ræddar í kosningum, nema kannski við kjördæmabreytinguna 1959, þannig að ég er hjartanlega sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um þetta.

Ég er sammála honum um að þjóðin eigi að koma að því að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá og það eigi að vera bindandi. Þess vegna þarf að festa það í lög. Ég er hins vegar ekki sammála honum um að setja eigi háa þröskulda fyrir því hversu margir taki þátt í slíkri atkvæðagreiðslu. Með því að setja svona þröskulda geta þeir sem sitja heima haft áhrif á atkvæðagreiðsluna af því að þeir mæta ekki. Ég geri athugasemdir við það.

Síðan geri ég líka athugasemdir við það að allir þurfi að vera sammála um stjórnarskrána. Af hverju? Á endanum eru menn ekki alltaf sammála um eitthvað, en kveðið er upp úr með það og komist að niðurstöðu. Þeir sem eru ekki nákvæmlega sammála því sem ákveðið er, þeir láta bara í minni pokann. Ég hef engar skrúbblur yfir því að láta í minni pokann.