140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stjórnarskipunarlög.

43. mál
[15:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vakti athygli á ákveðnum vinklum varðandi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sem stendur auðvitað upp úr er að slík atkvæðagreiðsla, sem hægt er að láta fara fram og getur kallað á einhverja niðurstöðu, bindur hvorki hendur þess þings sem ákveður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu né þess þings sem sest og tekur stjórnarskrá til meðferðar að loknum alþingiskosningum. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem liður í þessu ferli stjórnarskrárbreytinga er því einhvers konar hliðarspor eða útúrdúr frá því ferli sem núgildandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir. Þess vegna er afstaða mín eins og ég lýsti í ræðu minni áðan að það sé á margan hátt eðlilegra, heppilegra og skynsamlegra að breyta fyrst 79. gr., ákvæðinu um aðferðina við stjórnarskrárbreytingar, áður en farið er út í allan hinn stóra og viðamikla, efnislega pakka sem m.a. má sjá tillögur um í niðurstöðum stjórnlagaráðs.