140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[15:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég hefði aðstoðarmann gæti hann verið að vinna í frumvörpum sem ég ætla að flytja, sem ég geri ekki meðan ég stend hér í ræðustólnum. Hann gæti verið að ræða við fjölmiðla, hafa samband við þá, hann gæti verið að útbúa efni fyrir fjölmiðla og annað slíkt. Við erum því í reynd að fjölga þeim mönnum á launum sem starfa við að búa til frumvörp og að kynna þau. Ég held að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar ætti að líta á þennan flöt líka af því að mér finnst hann skipta máli.

Ég hefði viljað sjá fækkun þingmanna á móti, en það er líka stærra mál, þannig að ekki komi til aukinn kostnaður. Það verður aukinn kostnaður af þessu því að ráðherrarnir eru á sínum launum og þingmennirnir á sínum launum, þegar varamenn eru kallaðir inn bætist við fólk á launaskrá. (Gripið fram í.) Það þykir mér alltaf voðalega sárt þegar við aukum kostnað ríkissjóðs en það væri spurning um að fækka þá þingmönnum á móti. Það má segja að ráðherrar taki engan þátt í nefndastarfi eða utanlandsstarfi þingsins þannig að það mundi mjög lítið breytast ef þingmönnum yrði hreinlega fækkað sem þessu nemur.

Til að vega upp þennan lýðræðishalla, um hversu margir eru á kostnað skattgreiðenda að útbreiða fagnaðarerindið fyrir hvern flokk, tel ég að stjórnarandstaðan þurfi að fá aukið vægi á móti.