140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[15:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er óþarfi að segja frá því að ég styð frumvarpið þar sem ég er einn flutningsmanna þess, var á sama eða svipuðu frumvarpi á síðasta þingi og hef lengi verið þeirrar skoðunar að það beri að skilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið að með þessum hætti. Fyrirmynd mín í því er ríki sem ég var svo heppinn að búa í nokkra vetur fyrr á ævinni, þ.e. konungsríkið Noregur, þar sem þessi siður er við lýði og þá, að ég hygg, nú man ég það ekki nákvæmlega, ekki þessi væga útgáfa sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir leggur hér til, heldur fari ráðherrarnir út af þinginu, Stórþinginu norska, ef þeir hafa á því setu og koma ekki aftur þangað þó að skipt sé um ríkisstjórn.

Það er annað kerfi í Noregi og ég verð að viðurkenna að ég hef í undanförnum vandræðum okkar aðeins horft til þess. Norðmenn eru líka með það kerfi að þar stendur kjörtímabilið hvað sem gerist, það er fjögur ár, og þar með er þingmönnumsem fella stjórn skylt að lýsa yfir stuðningi við aðra eða sjá til þess að önnur sé mynduð. Þetta hefur skapað stöðugleika, þessi skipan í Noregi, sem okkur hefur sárlega vantað hér, ekki bara undanfarin missiri heldur í allri lýðveldissögunni og kannski allri sögunni aftur til upphafs 20. aldar.

Nú er ég ekki að segja að með einni breytingu af þessu tagi muni allt verða gott á Íslandi, það er auðvitað ekki svo, en hér er verið að leggja til lítið skref, mjög vægt, m.a. hygg ég vegna þess að okkur finnst sumum ekki viðkunnanlegt að leggja til breytingar á stjórnarskránni meðan hún er hér í umræðu með allt öðrum hætti. Þetta er vægasta breyting sem hægt er að gera þannig að þingmaður sem verður ráðherra hætti á þingi meðan hann er ráðherra en eigi þess kost að koma aftur sem þingmaður. Ég held að þetta mundi þegar bæta nokkuð, skerpa skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds þó að auðvitað sé það rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson segir, að með því verður í sjálfu sér engin stórbreyting, engin þáttaskil, ráðherrarnir taka hér enn til máls, a.m.k. um sín mál, og væntanlega tengjast þeir þeim þingflokkum sem þá styðja með einhverjum hætti þó að það sé reyndar ekki alveg víst.

Ég vil fyrst segja um umkvörtunarefni hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Birgis Ármannssonar að ég er því í sjálfu sér sammála og hef alltaf haft það í huga í mínum málflutningi í þessu að það verður að sjálfsögðu að skoða aðstæður stjórnarandstöðunnar í samhengi við breytingu af þessu tagi. Ég held að það sé hins vegar til of mikils mælst að það sé gert í því frumvarpi þar sem um þetta er fjallað en ég álít það eðlilegt næsta skref að athuga með hvaða hætti stjórnarandstaðan yrði styrkt. Það hefur gerst að undanförnu í breytingum sem yfir hafa gengið hér frá hruni og ég held að við eigum að halda því áfram því að það styrkir líka þingið þó að þess verði auðvitað að gæta að hlutverk stjórnarandstöðunnar er ekki að koma í veg fyrir að stjórnarmeirihlutinn nái að koma fram þeim málum sem hann er sammála um heldur að gagnrýna meiri hlutann, sjá til þess að málin séu eins skynsamleg og efni geta staðið til og auðvitað að halda fram skoðunum sínum og valkostum gagnvart kjósendum næst þegar tækifæri gefst til.

Þetta er rétt og ég tek undir það ósköp einfaldlega og lít á það sem næsta skref eftir að þetta verður samþykkt að ganga í að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar vegna þess aukna vægis sem málstaður stjórnarsinna mundi fá við þetta. Það er auðvitað rétt.

Ég vil svo hrósa hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir staðfestu sína við hina heilbrigðu íhaldsstefnu. Það er rétt að efast um það sem koma kynni í krafti þess að maður kynni að missa einhvers í því sem nú stendur. Þá vil ég segja það í fullri alvöru að ég held að því kerfi sem við höfum búið við alllengi að þessu leyti fylgi engir þeir kostir sem væru í hættu við það að breyta hér um og gera með þessu móti ákveðna tilraun sem síðar væri hægt að staðfesta í stjórnarskrá eða búa betur um.

Þetta er ekki nýtt. Þó að það séu undantekningar hafa þrír ráðherrar sem ég man eftir setið, fyrir utan utanþingsráðherrana sem við könnumst við úr fyrri gerð af þeirri ríkisstjórn sem enn situr. Þeir Geir Hallgrímsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, voru hér á bekkjum og tóku til máls um sín efni og ég held að það hafi í raun og veru gefist vel þó að menn hafi litið á það sem undantekningu á sínum tíma. Tveir þessara ráðherra urðu þingmenn eftir að þeir sátu á ráðherrabekkjunum sem utanþingsráðherrar.

Ég tel að þetta yrði, já, vissulega táknræn breyting en ég held að það sé ekki hægt að skilja að, frekar en annars staðar í mannlífinu, hið táknræna og hið raunverulega, þetta hangir saman. Það er breyting að ráðherrar taki hér ekki til máls nema um þau efni sem þeim koma beint við. Það er breyting að þeir hafi hér ekki atkvæðisrétt, heldur verði að treysta þingflokkunum sem þeir styðjast við — því að það er þannig — til að styðja þá sín mál og verða að fara í gegnum þá þingflokka með málin þó að þeir geti átt mikið í þeim og haft eðlilega mikil áhrif. Það er mín reynsla, hún kann að vera önnur í flokki hv. þingmanns en hún er það í þeim þingflokkum sem ég hef setið í á þinginu sem aðalmaður eða varamaður, að það er ekki auðvelt að andæfa vilja ráðherrans þegar hann situr á fleti fyrir í þingflokki. Ráðherrarnir geta verið fjórðungur þingmanna eða jafnvel meira í sumum flokkum. Ég var að vísu ekki í Alþýðuflokknum á sínum tíma en þegar sá flokkur var í ríkisstjórn voru ráðherrarnir upp undir helmingur þingflokksins og jafnvel meiri hluti þannig að það var ekki auðvelt við að fást.

Það sem hefur gerst í Noregi, þannig að ég taki það dæmi, er að þar koma ráðherrar að sjálfsögðu úr hópi þingmanna en þeir eru líka valdir utan þings. Þeir koma af vettvangi atvinnulífsins, fræðasamfélagsins eða menningarveraldarinnar og verða ráðherrar. Þetta hefur verið hollt og gott í Noregi, það er ákveðinn ferskleiki í ríkisstjórninni og þetta eru síst verri ráðherrar, jafnvel betri. Þegar þeir hafa lokið sínum ráðherratíma fara þeir annaðhvort á sinn stað eða annan utan þings eða þeir koma inn á þingið og verða þingmenn. Þetta er með ýmsum hætti en þegar þessir, ég segi nú ekki heiti og kaldi straumur en tvenns konar straumar mætast, hefur það verið mjög hollt fyrir stjórnmálin í Noregi. Það hefur skapað þar mjög skýr skil ásamt öðrum þeim sérkennum eða mismun sem ég nefndi á norska kerfinu og hinu íslenska, skýr skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og gert stjórnmálin þar mun liðugri og skilvirkari en við þekkjum hér.

Ég ætla ekki að segja öllu meira um þetta en minni þó á að flokkur okkar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur hefur samþykkt þetta, að ég hygg á landsfundinum síðasta frekar en flokksstjórnarfundi, þannig að við erum hér að fremja vilja flokksmanna með því að styðja þetta mál. Ég óska þess sérstaklega að flokksfélagar okkar á þinginu minnist þessarar samþykktar við störf að málinu í nefnd og afgreiðslu þess þegar það kemur úr nefndinni.