140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[16:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þó að ég harmi ekki þá skipan sem hér var komið upp í fjarveru minni að landsbyggðarmenn hefðu sérstaka aðstoðarmenn er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að ekki einungis stjórnarandstæðingar heldur líka stjórnarliðar hafa fundið fyrir því að það hefur kreppt að í samfélaginu og það er minna umleikis á þinginu en var og ætti að vera. Við sjáum það bara á tölvunum okkar sem yrði fleygt út á venjulegum vinnustöðum á Íslandi og taldar þar orðnar einhvers konar risaeðlur sem ekki nokkur maður gæti unað við.

Svona er þetta en kannski hressist nú Eyjólfur. Ef þessi ríkisstjórn heldur áfram að sinna hlutverki sínu með jafnmiklum þrótti og hingað til geri ég ráð fyrir að ekki verði langt að bíða fyrir hv. þm. Birgi Ármannsson að það hægist aðeins um í þessu efni.

Ég ítreka að ég tek undir þetta, ég tel að breyting af þessu tagi yrði að verða til þess að styrkja með einhverjum hætti stjórnarandstöðuna og þar með þingið sjálft, en tek þó fram að það er kannski ekki alveg víst að hlustað sé á sjónarmið í samfélaginu í hlutfalli við fjölda flutningsmanna þeirra, heldur kannski frekar eftir því hver eftirspurn er eftir þeim og hvernig flutningsmennirnir flytja mál sitt sem lengi hefur skipt jafnmiklu máli í okkar samfélagi frá alda öðli og það hvert mál þeirra er. Það er í sjálfu sér glæsilegt þó að það hafi ekki beinlínis bætt umræðuna í samfélaginu.