140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[16:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að við ræðum þetta, við hv. þm. Birgir Ármannsson, að samþykktu frumvarpinu og þegar við erum komnir í næsta áfanga í þessu máli sem er með hvaða hætti styrking stjórnarandstöðunnar kunni að verða.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki miklar áhyggjur af fjárhag Sjálfstæðisflokksins í því efni eða þeirri aðstoð sem hann nýtur því að hann virðist enn fá töluverðan styrk og þrótt úr gildum sjóðum. Að minnsta kosti bendir þetta landsfundarblað sem Bjarni Benediktsson og félagar hans hafa hér gefið út á undanförnum dögum til þess.

Þannig að ég tali í meiri alvöru vonast ég til að eitt af því sem gerist við þetta sé það að ferill stjórnmálamanna breytist. Menn ákveða að taka þátt í stjórnmálum og þá er einhvern veginn allt undir. Menn fara á þing en það er eins og það sé ekki vel heppnað að fara á þing, það sé ekki farsæll stjórnmálaferill nema menn geti bætt titlinum fyrrverandi ráðherra við nafnið sitt í símaskránni. Ef menn eru bara á þingi er það eins og hálfur ferill. Þetta finnst mér aldeilis fráleitt. Sumum mönnum lætur vel að hafa mannaforráð og sitja á vegum framkvæmdarvaldsins og stjórna þar málum, öðrum lætur betur að vera á þingi, bera þar fram tillögur, taka þátt í hugmyndaumræðu, leggja á ráðin um fjármál o.s.frv. Þetta eru tvö hlutverk og við höfum fjölmörg dæmi um að menn geti ekki verið góðir í báðum þessum hlutverkum. Þau fara ekki vel saman og það á ekki að vera þannig að hlutverk þingmannsins og hlutverk þingsins sé lægra sett en hlutverk ráðherrans og merkingin með framkvæmdarvaldinu.