140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta frumvarp fjallar ekki um þingfararkaup og ég vil síður blanda umræðunni um hvernig það sé heppilegast inn í þau mál sem fjallað er um í frumvarpinu. Ég vil hins vegar segja í tilefni af orðum hv. þingmanns að allir vita að þingfararkaupið hefur lækkað hlutfallslega miðað við það sem það var og ég geri ráð fyrir að það hækki einhvern tímann aftur þegar ástandið skánar í samfélaginu. Ég held að það sé eðlilegt. Ég vil líka segja að ég tel að þingfararkaup eigi í stuttu máli ekki að vera of hátt og ekki of lágt. Ég tel að samanburður sem sumir þingmenn hafa gert við stjórnkerfið, við embættismenn, skrifstofustjóra í ráðuneytum, ráðuneytisstjóra, forstjóra ríkisfyrirtækja o.s.frv., sé ekki rétta leiðin til að líta á þingfararkaup. Ég held að eina rétta leiðin til þess að líta á þingfararkaup sé sú að bera það saman við laun þeirra sem við sitjum hér fyrir og reyna með einhverjum hætti að hafa það ekki of hátt, þannig að menn sækist ekki eftir þingmennsku launanna vegna, en ekki heldur of lágt til að menn hrekist frá.

Ég held að það verði að finna eitthvert það millibil þar sem þingmenn hafa ekki losnað úr tengslum frá þeim hluta umbjóðenda sinna sem hafa lægri tekjur í samfélaginu. Ég held að það sé mikilvægara en hitt. Ég tel engan sérstakan skaða þó að menn losni úr tengslum við þá sem hæst hafa launin í þessu samfélagi.