140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:28]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er fullkomlega sammála hv. þm. Merði Árnasyni um að þingfararkaup eigi að vera ekki of hátt, ekki of lágt, heldur akkúrat passlegt svo í þetta starf veljist fólk af hugsjón og áhuga fremur en því að það sé með einhverja glýju í augum út af góðum kjörum.

Það var ekki út af því sem ég kom hingað heldur langaði mig til að spyrja nokkurs í sambandi við þessa umræðu. Mig rámar í að í fyrra hafi ég flutt hérna með hv. þm. Merði Árnasyni þingsályktunartillögu, má ég segja, í þá veru að allir þingmenn hefðu jafnt kaup. Ég er fyrir mitt leyti jafnaðarmaður og ég hef aldrei skilið þessar mismunandi launagreiðslur á þinginu. Ég hélt að maður væri kosinn á þing og bara basta, það væri svoleiðis.

Sú hugmynd okkar hv. þm. Marðar Árnasonar að allir væru hér á sömu launum naut ekki mikilla vinsælda ef satt skal segja svo ég skil alveg ef félagi hv. þm. Mörður Árnason er kominn á aðra skoðun, en ég spyr þá: Er rétt skilið hjá mér að þetta gangi út á að þingmenn eigi allir að vera jafnir í launum en sumir ofurlítið jafnari en aðrir?