140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:34]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að blanda mér aðeins í þessa umræðu, enda búinn að taka þátt í stéttabaráttu um áratugaskeið. Ég vil byrja á því að þakka framsögumönnum og frummælendum þessa frumvarps fyrir að koma þessu máli á dagskrá. Ég man eftir umræðunni sem var einmitt um þetta mál á sama tíma hér fyrir ári síðan.

Ég tek heils hugar undir megininntakið í þessu frumvarpi, þ.e. það atriði að það eigi alla ekki að vera í höndum Alþingis að ákvarða eitt eða neitt um sín eigin kjör. Það gengur ekki að alþingismenn einir stétta sem heyra undir kjararáð hafi einhverjar aðrar leiðir til að ákvarða sjálfir um sín kjör til viðbótar við það sem kjararáð ákveður.

Það kemur skýrt fram í fylgiskjali I frá fulltrúum í kjararáði að þeir telja sjálfir, þeir mætu embættismenn, að ákvörðunarvald í þessum málum sé alfarið á einni hendi og annað sé óviðeigandi, og það eigi ekki verið að skipta því upp að hluta til hjá kjararáði og aðrir þættir séu síðan á öðrum vettvangi eins og innan þingsins. Ég held að það sé líka mikilvægt atriði varðandi virðingu þingsins og samstöðu út á við að þessi mál séu ekki til umræðu í þingsalnum eins og einhver launamálaumræða þingmanna.

Eina atriðið sem ég vil gjarnan spyrja hv. framsögumann, Mörð Árnason alþingismann er þetta: Hvers vegna binda menn viðmiðið við 15% í álagsgreiðslum, hvers vegna er verið að leggja kjararáði í raun og veru einhverjar línur í þessum efnum? Hvers vegna er það ekki alfarið í höndum kjararáðs að ákveða þetta með einum eða öðrum hætti?