140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:50]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt um hvort eðlilegt sé að þingmenn ákveði laun sín sjálfir eða hvort það sé gert af kjararáði. Um þetta eru náttúrlega skiptar skoðanir. Sumir eru þeirrar skoðunar að það sé bara aulaskapur af þingmönnum að þora ekki að horfast í augu við að það eru þeir sem ráða og þeir geta ráðið launakjörum sínum sjálfir. Þegar sú ákvörðun var tekin að láta kjararáð gera það voru þingmenn gagnrýndir og sagt að það væri vegna þess að þá fengju þeir launahækkun sem þeir hefðu aldrei þorað að ákvarða sjálfir.

Í þessu efni eins og mörgum öðrum eru skiptar skoðanir um hvað sé rétt og hvað sé best. Ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt að kjararáð geri þetta, alþingismenn ákveði laun sín ekki sjálfir, og þá er ég líka sammála því sem er í fylgiskjali með því frumvarpi sem við flytjum, hv. þm. Mörður Árnason og ég, að kjararáði beri að ákveða öll laun þingmanna, ekki einungis grunnlaun, og síðan ákveðum við sjálf álög þar á.

Ég hef út af fyrir sig litlu við framsögu fyrsta flutningsmanns að bæta. Ég vil hins vegar ítreka það sem kom skýrt fram í ræðu hans að ég er þeirrar skoðunar að laun allra þingmanna nema hugsanlega forseta þingsins eigi að vera jöfn. Þingmenn geta rækt starf sitt vel og þeir geta rækt starf sitt illa, þeir geta eytt í það miklum tíma og litlum tíma. Þetta er mjög sérkennilegt starf, þetta er blanda af hópefli og starfi einyrkja og ég tel sem sagt að allir þingmenn eigi að hafa jöfn kjör.

Á hinn bóginn kom fram mikil gagnrýni þegar þetta mál var flutt í fyrra á að ekki væri litið til þeirrar vinnu sem þingmenn, sem hafa valist til meiri ábyrgðarstarfa en aðrir, legðu á sig og þá er það í anda þessa frumvarps að koma á málamiðlun. Þess vegna er lagt til hér að kjararáð ákveði þessi laun.

Ég vil hins vegar segja það líka, af því að í umræðunni í fyrra kom fram að það væri popúlismi að tala um að lækka laun þingmanna og þar fram eftir götunum, að í mínum huga hef ég litið svo á að ef laun allra þingmanna væru jöfn yrði heildarlaunatalan eins og hún er núna lögð saman og þá fengi forseti þingsins eitthvað, og restinni yrði deilt niður á fjölda þingmanna — eða ég kann þetta ekki alveg vegna þess að ráðherrarnir eru á einhverjum sérkjörum. En heildarlaunatalan yrði sem sagt komin og henni yrði skipt jafnt á milli allra. Auðvitað þýddi það að einhverjir fengju launahækkun og aðrir launalækkun. (EyH: Út með ráðherrana.) Svo talaði ég fyrir því fyrr í dag að ráðherrarnir sætu ekki á þingi og þægju ekki laun héðan. Það er mín skoðun.

Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu hvort laun þingmanna séu há eða lág. Það má segja að mikil eftirspurn sé eftir því að vera þingmaður og fólk leggur ýmislegt á sig til þess sem bendir kannski ekki til að launin séu óskaplega lág. Á hinn bóginn er alveg ljóst að ef menn fara í samanburðarleikfimi við þingmenn annars staðar eru launin ekki mjög há, en ég ætla ekki í þá umræðu. Það gleður mig að tiltölulega margir hafa talað fyrir þessu í dag og ég vona að við náum málinu áfram.

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemd við tillögu félaga míns, hv. þm. Marðar Árnasonar, um að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki rétt að það fari til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en ég svo sem kveð ekki upp úr með það og bið forseta að gera það.