140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[17:08]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér afar gott að við skulum geta létt á hjarta okkar í þessum þingsal í tilefni af því ágæta máli sem er til umræðu, flutt af hv. þingmönnum Merði Árnasyni og Valgerði Bjarnadóttur.

Málið hefur tekið breytingum frá því að það kom upp á síðasta þingi því að nú er gert ráð fyrir því að kjararáði verði gert heimilt að ákveða þær álagsgreiðslur sem til greina koma fyrir sérstök störf í þágu þingsins. Það held ég að sé afskaplega góð breyting. Það er rétt sem fram hefur komið í umræðum að þingmannsstarfið er mikið álagsstarf, því fylgir áreiti. Við vinnum mikla yfirvinnu sem er engan veginn reiknuð okkur til tekna og lifum takmörkuðu fjölskyldulífi, a.m.k. landsbyggðarþingmennirnir sem þurfa að brjótast yfir fjöll og heiðar um hávetur til að komast heim til sín.

Ekkert af því eigum við að fjalla um sjálf í tengslum við launagreiðslur okkar en það eru að sjálfsögðu allt þættir sem kjararáð hlýtur og á að taka til yfirvegunar í samhengi við ákvörðun launa okkar. Ég held því að það fari best á því að það sé tekið til athugunar í þeim ranni frekar en að við stöndum í ræðustóli og börmum okkur mikið yfir kjörum okkar. Það er ekki beinlínis starf að vera þingmaður, það er hlutverk. (Gripið fram í.)