140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Fjarðarheiðargöng.

127. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um Fjarðarheiðargöng. Flutningsmenn tillögunnar eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Björn Valur Gíslason, Ólöf Nordal, Birkir Jón Jónsson, Tryggvi Þór Herbertsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að hefja nú þegar fullnaðarundirbúning að gerð Fjarðarheiðarganga. Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi verði lokið í tæka tíð til að hægt verði að hefja framkvæmdir í beinu framhaldi af Norðfjarðargöngum.“

Hæstv. forseti. Það er gífurlega mikilvægt fyrir búsetu á Seyðisfirði og í raun Austurlandi öllu að ráðist sé í að leysa samgöngumál Seyðfirðinga. Það er svo komið að ekki verður lengur búið við þær aðstæður sem vegurinn yfir Fjarðarheiði kallar yfir vegfarendur og þá vetrareinangrun sem Seyðfirðingar upplifa.

Almenn samstaða er orðin um það á Austurlandi að lausnin sé Fjarðarheiðargöng og er stuðningur við það innan Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi að Fjarðarheiðargöng verði næstu göng á eftir Norðfjarðargöngum. Tillagan sem hér er lögð fram er efnislega samhljóða tillögu sem var flutt á 136. löggjafarþingi (þskj. 799, 449. mál). Þá fylgdi henni viðamikil greinargerð um meðal annars sögulega þróun umræðu um jarðgöng til að leysa samgönguvanda Seyðisfjarðar. Þeim hluta greinargerðarinnar er reyndar sleppt hér þótt hann standi enn fyllilega fyrir sínu og er áhugaverð lesning fyrir þá sem áhuga hafa á samgöngumálum. Í þeirri greinargerð er einnig gerð grein fyrir veðurfarslegum þáttum, fjölda lokunardaga, umferðaröryggi og fleiri þáttum.

Í greinargerðinni sem fylgir þessari tillögu nú er hins vegar gerð grein fyrir nýjustu ályktunum bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs og nýjustu rannsóknum sem gerðar hafa verið.

Hæstv. forseti. Vetrareinangrun Seyðisfjarðar verður ekki leyst með öðrum hætti en jarðgöngum. Í fjöldamörg ár hefur verið í athugun að leysa samgöngumál á milli Seyðisfjarðar og annarra hluta Austurlands með jarðgöngum. Vegurinn yfir Fjarðarheiði er í 620 metra hæð og verður þar með hæsti fjallvegur til þéttbýlisstaðar þegar Norðfjarðargöngum er lokið. Auk þess er vegurinn í mikilli hæð á löngum kafla eða á um 10–15 km kafla í yfir 550 metra. Björgunarsveitir frá Seyðisfirði og Fljótsdalshéraði eru oft tímunum saman á Fjarðarheiði við að bjarga fólki niður af heiðinni í óveðrum. Á undanförnum árum hefur Vegagerðin skilgreint 20–40 daga á Fjarðarheiði sem vandræðadaga, þ.e. vegfarendur þurfa aðstoð, snjómokstur er nánast samfelldur eða vegurinn er hreinlega lokaður. Þannig ástand getur og hefur varað á veginum fram á mið sumur. Við þetta bætast þeir dagar þegar skefur á heiðinni með mikilli blindu, sem verður til þess að mjög hættulegt er að ferðast um veginn.

Mikilvægi vegarins um Fjarðarheiði felst ekki síst í því að hann er eina vegtengingin við ferjusiglingarstað út úr landinu. Ferðir Norrænu allt árið frá Seyðisfirði er eina tenging landsins við meginland Evrópu með farþegasiglingum með reglubundnum hætti. Um 40 þús. farþegar fara um Seyðisfjarðarhöfn árlega. Flutningar með Norrænu eru geysimiklir. Yfir 10 þús. ökutæki fara árlega með ferjunni og 25 þús. tonna vöruflutningur, sem samsvarar nærri 900 fulllestuðum vöruflutningabílum. Þessir flutningar hafa stöðugt verið að aukast og þess má geta að síðastliðið ár voru af þessum 25 þús. tonnum um 15 þús. tonn af fiski. Á þessu ári stefnir í að þetta verði ívið meira.

Þess ber að geta og rétt að minna á það að Norræna siglir allt árið til Íslands, þetta eru mikilvægar samgöngur til landsins. Því þarf vegurinn um Fjarðarheiði að þjóna mikilli umferð ferðamanna og flutningabíla í tengslum við siglingar ferjunnar. Ekkert verður ofsagt um mikilvægi þess að slíkur vegur uppfylli ströng skilyrði varðandi öryggi vegfarenda.

Í þessari þingsályktunartillögu er gert ráð fyrir því að undirbúningi og rannsóknum vegna Fjarðarheiðarganga verði lokið þannig að hægt sé að ráðast í gerð þeirra strax í kjölfar Norðfjarðarganganna, en undirbúningi þeirra er nú lokið. Mörgum kann að þykja tímaramminn þröngur en á það ber að líta að mikið af gögnum liggur nú fyrir vegna vinnu sem í áranna rás hefur verið lagt í m.a. af Seyðisfjarðarkaupstað, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Vegagerðinni. Ef ráðist verður í gerð Norðfjarðarganga þarf að ljúka öllum rannsóknum við Fjarðarheiðargöng á árinu 2014 til að hægt verði að ráðast í þær framkvæmdir strax að loknum Norðfjarðargöngum, þannig að ekki veitir af tímanum til að hefja þær rannsóknir.

Þá ber einnig að líta á að með tilliti til sögulegrar þróunar umræðunnar um jarðgöng á Austurlandi eru Norðfjarðargöng aðeins fyrsti áfangi stærri framkvæmdar sem hefur það að markmiði að gera Austfirði og Hérað að einu atvinnu- og þjónustusvæði og gjörnýta þannig möguleika þjónustustofnana á Austurlandi. Göng undir Fjarðarheiði yrðu annar áfangi þeirrar framkvæmdar og því rökrétt framhald jarðganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.

Það er til marks um hversu mikla áherslu Seyðfirðingar leggja á gerð Fjarðarheiðarganga að bæjarstjórnin hefur, eftir viðræður við samgönguyfirvöld, ályktað um að „Seyðfirðingar lýsa sig reiðubúna til viðræðna um að veggjöld verði liður í fjármögnun Fjarðarheiðarganga, geti það orðið til að flýta fyrir ákvörðun um gerð þeirra.“

Það er auðvitað fagnaðarefni að Samtök sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hafa nú tekið af skarið og raðað Fjarðarheiðargöngum næst á eftir Norðfjarðargöngum sem nú eru tilbúin til útboðs. Kemur það fram í tillögu framkvæmdaráðs SSA um forgangsröðun verkefna innan landshlutans vegna fjárfestingaráætlunar ríkisins árið 2012 og samþykkt aðalfundar SSA 2011.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur á undanförnu ári lagt á það mikla áherslu í störfum sínum að kynna þá gríðarlegu þörf sem er fyrir að leysa samgönguvanda Seyðisfjarðar með jarðgöngum. Það hefur meðal annars verið gert með fundum með samgönguyfirvöldum, ráðherra samgöngumála, vegamálastjóra og þingmönnum kjördæmisins. Auk þess hefur bæjarstjórnin sent frá sér ályktanir sem sprottið hafa af ýmsum tilefnum og eru þær orðnar nokkuð margar á þessu síðasta ári.

Þann 14. júlí sendi bæjarstjórn Seyðisfjarðar frá sér ályktun þar sem gerð er ítarleg grein fyrir þeim rökum sem styðja við að ráðist verði í gerð Fjarðarheiðarganga.

Með leyfi forseta, hljóðar ályktunin svo:

„Bæjarstjórn Seyðisfjarðar skorar á samgönguyfirvöld að jarðgöng milli Seyðisfjarðar og Héraðs verði í endurskoðaðri samgönguáætlun sem lögð verður fram á haustdögum. Bæjarstjórnin ítrekar þar með fyrri ályktun sína m.a. frá 17. september 2008 og margar ályktanir þar á undan um samgöngubætur milli Seyðisfjarðar og Héraðs. Ekki verður lengur unað við þær hættulegu og óásættanlegu aðstæður sem eru í samgöngumálum Seyðisfjarðar.

Strax verður að tryggja rannsóknarfé til að ljúka undirbúningsrannsóknum vegna Fjarðarheiðarganga svo hægt verði að hefja framkvæmdir sem allra fyrst. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar treystir því að haldið verði áfram með rannsóknirnar á þessu ári.“

Með þessari ályktun fylgir greinargerð og þar eru helstu rök Seyðfirðinga fyrir Fjarðarheiðargöngum talin upp. Ég vil, með leyfi forseta, leyfa mér að telja upp þau atriði sem eru hér í punktaformi og er kannski ekki mjög áheyrilegt, en ég ætla að lesa þetta.

Helstu rökin eru þessi:

„Mikil atvinnu- og skólasókn er yfir Fjarðarheiði í báðar áttir þar sem hluti bæjarbúa sækir vinnu og stundar nám daglega í nágrannabyggðarlögum.

Ófærð og vandræði á Fjarðarheiðinni standa gjarnan yfir í nokkra daga í senn, dæmi eru um allt að sjö daga samfellt tímabil þar sem erfitt og ómögulegt hefur verið að komast yfir.

Útköll björgunarsveitanna á Seyðisfirði og Egilsstöðum hafa aukist mjög mikið síðastliðin ár vegna erfiðrar vetrarfærðar á Fjarðarheiði.

Stór hluti íbúabyggðar á Seyðisfirði er á skilgreindum ofanflóðahættusvæðum. Ef hættuástand skapaðist og/eða snjóflóð féllu eru Seyðfirðingar mjög háðir því að samgöngur um þennan eina akveg séu greiðfærar.

Vetrarþjónusta á heiðinni hefur verið skert þannig að opnunartími er styttri.

Margir veigra sér við því að fara yfir heiðina nema hún sé alveg greiðfær og fólk þorir ekki á heiðina vegna hálku, skafrennings og blindu. Þessar aðstæður valda því mikilli einangrun fyrir fjölda fólks.

Seyðisfjörður er landamærabær og eina vegtenging bílaumferðar til og frá Evrópu liggur þar um.

Heilsárssiglingar Norrænu hafa mikil áhrif á ferðaþjónusta um allt land samkvæmt rannsókn á þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Því er mikilvægt að enn frekar sé hægt að fjölga ferðamönnum sem ekki verður gert nema með öruggum samgöngum um Fjarðarheiði.

Þeir sem nýta fragtþjónustu ferjunnar verða að geta treyst á að koma farmi sínum í skip. Allt of oft hefur það gerst að farmur hefur ekki komist á tilsettum tíma vegna ófærðar. Þetta ógnar heilsárssiglingum verulega.

Á Egilsstöðum er flugvöllurinn og samspil flugvallar og ferjuhafnar er mjög mikilvægt.

Öruggar samgöngur frá Seyðisfirði eru nauðsynlegar til að komast í sjúkraflug og á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað þar sem fæðingardeildin er m.a. staðsett.

Öruggar samgöngur við flugvöllinn á Egilsstöðum eru gríðarlega mikilvægar þegar kemur að öryggi og allri sérfræðiþjónustu lækna við íbúana. Aðgengi að flugvelli er einnig mikilvægt fyrir tengingu við höfuðborgarsvæðið þar sem stærstur hluti opinberrar stjórnsýslu er staðsettur.

Heilbrigði og öryggi Seyðfirðinga er ógnað vegna tíðrar ófærðar yfir heiðina.

Löggæsla hefur verið verulega skert á Seyðisfirði og lögreglustöðin hefur m.a. verið lögð niður.

Íbúar Seyðisfjarðar sækja verslun og opinbera þjónustu í auknum mæli til Egilsstaða.

Samvinna og samstarf sveitarfélaga hefur aukist verulega, m.a. samstarf um félagsþjónustu, skólaþjónustu og málefni fatlaðra.

Brunavarnir eru í samstarfi milli Héraðs og Seyðisfjarðar, sem er stórt öryggismál.

Byggðaþróun hefur ekki verið nógu hagstæð. Óviðunandi samgöngur er stór þáttur í þeirri þróun. Með jarðgöngum stækkar atvinnusvæði Seyðisfjarðar og nágrannabyggðarlaga.

Forsenda sameiningar sveitarfélaga eru bættar samgöngur.“

Hæstv. forseti. Þetta var hluti af þeim rökum sem talin voru upp með ályktuninni.

Bæjarstjórnin sendi einnig frá sér fréttatilkynningu vegna umræðu um öryggismál á þjóðvegum en þar segir, ef ég fæ að vitna í þá fréttatilkynningu, með leyfi forseta:

„Í ljósi fjölmiðlaumræðu síðustu daga um öryggi í Hvalfjarðargöngum minnir bæjarstjórn Seyðisfjarðar á að í nýlegri úttekt Euro RAP á íslenska vegakerfinu fær vegurinn yfir Fjarðarheiði slæma útkomu. Væru vegamót á leiðinni milli Seyðisfjarðar og Héraðs fleiri en raun ber vitni fengi vegurinn aðeins tvær stjörnur af fimm fyrir öryggi en í skýrslunni er bent á að vegurinn yfir Fjarðarheiði er mjög hár, brattir fláar á honum nánast alla leið og er leiðin eftir því hættuleg vegfarendum. Á sérstöku slysakorti Euro RAP sem byggt er á slysasögu með tilliti til lengdar vegar og umferðarmagns fær Fjarðarheiði aðeins eina stjörnu. Leiðin er með öðrum orðum skilgreind sem einn hættulegasti vegur landsins.“

Bæjarstjórnin sendi einnig frá sér ályktun vegna samgönguáætlunar og þar var farið yfir þessa þætti, þ.e. öryggismálin, atvinnumálin, sem skipta þarna gífurlega miklu máli, þjónustusóknina og veginn til og frá Evrópu, áhrif á byggðaþróunina og lögð er áhersla á og minnt á það að þessi framkvæmd nýtur stuðnings.

Ég vil leyfa mér að vitna í ályktun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Bæjarráð Fljótsdalshéraðs lýsir yfir fullum stuðningi sínum við bæjarstjórn Seyðisfjarðar í baráttu þeirra fyrir jarðgöngum sem tengja Seyðisfjörð við Hérað. Fljótsdalshérað hefur af heilum hug stutt við baráttu nágrannasveitarfélaga fyrir samgöngubótum innan fjórðungsins og mun gera það áfram.“

Hæstv. forseti. Það eru fleiri ályktanir sem bæjarstjórnin hefur sent frá sér og ég vil sérstaklega minnast á að að frumkvæði samgönguráðherra og vegamálastjóra var ráðist í að kanna jarðgangamunna, jarðgangaleiðir og fleiri þætti og var Verkfræðistofan Efla fengin til verksins. Það var mjög mikilvægur áfangi á þeirri leið að koma rannsóknum áfram en meira þarf ef við eigum að komast til enda.

Hæstv. forseti. Ég tel geysilega mikilvægt að málið fái framgang og legg því til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til síðari umræðu og umfjöllunar hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd.