140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Á fimmtudaginn í síðustu viku var haldin ráðstefna á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabankans og Stjórnarráðs Íslands. Þar kom fram margt áhugavert.

Þegar menn horfðu til þeirra framtíðarverkefna sem við þurfum að takast á við lögðu sérfræðingarnir þar, bæði innlendir og erlendir, áherslu á mikilvægi þess að tekið yrði á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Þeir töluðu um að það væri forsenda fyrir því að við gætum komið atvinnulífinu aftur af stað og þeir töluðu um mikilvægi þess að við ynnum að því að afnema gjaldeyrishöft. Einnig komu mjög skýrt fram áhyggjur þeirra af því hversu hægt hefur gengið við endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja. Í máli aðalhagfræðings Citigroup, Willems Buiters, kom fram mjög áhugaverð hugmynd sem ég hefði mikinn áhuga á að ræða við þingmenn. Ég tel að það sé nokkuð sem við eigum virkilega að skoða. Hann nefndi möguleika á því að færa skuldir heimilanna niður í 70% og taldi alveg fáránlegt að við hefðum sett viðmið við 110%. Það sem munar þarna, 30% því að það er venjan að miða við að fólk fari ekki yfir 100% skuldsetningu, yrði eignfært á efnahagsreikning viðkomandi fjármálastofnana þannig að fjármálastofnanirnar og þeir sem tóku lánin yrðu þá sameigendur að því húsnæði sem viðkomandi byggi í. Ég tel að við ættum virkilega að skoða möguleikana á að útfæra hugmynd frá sérfræðingi sem benti okkur til dæmis á að hrunið væri í vændum á sínum tíma.

Ef menn eru ekki tilbúnir að ræða þessa hugmynd tel ég mjög mikilvægt að við tökum af þær miklu takmarkanir sem voru settar um Íbúðalánasjóð í 110%-leiðinni. (Forseti hringir.) Það er algerlega óásættanlegt að fólk sem skuldar (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóði og Landsbankanum sem báðir eru í eigu ríkisins fái (Forseti hringir.) mismunandi meðhöndlun eins og staðan er í dag.