140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Að lokinni kjördæmaviku langar mig til að gera að umtalsefni stöðu Landeyjahafnar sem rædd var á nokkrum fundum í Vestmannaeyjum í gær. Mig langar til að biðja þingheim um að sameinast um að ýta úr vör nokkrum yfirvofandi og brýnum verkefnum.

Höfnin hefur leitt af sér mikla byltingu í samgöngumáta Eyjamanna sem lengi hafa verið einangraðir. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnulíf þar að vel verði haldið á í framhaldinu. Verkefnin fram undan eru að tryggja að höfninni sé af fremsta mætti haldið opinni og ég vil koma á framfæri vinsamlegum tilmælum til hæstv. innanríkisráðherra um að hann láti í þessu tilfelli dæluna ganga eins mikið og mögulegt er.

Þá þarf einnig að huga að smíði nýrrar ferju sem hentar á þessari siglingaleið og í þessari höfn og í millitíðinni að tryggja og reyna að fá til þessarar leiðar ferju sem hentar til bráðabirgða. Þetta held ég að þingheimur geti vel sameinast um. Eins og ég sagði hefur átt sér stað einhvers konar hljóðlát bylting í bæjarfélaginu, ekki bara fyrir atvinnulífið heldur anda bæjarfélagsins, þá daga sem opið hefur verið. Það skiptir okkur miklu máli. Við heyrðum líka sögur á kjördæmadögunum um gríðarleg högg sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir vegna þess að höfninni hefur verið lokað í ófyrirséðan tíma. Auðvitað eru þetta byrjunarerfiðleikar en ég vil bara koma þeim skilaboðum á framfæri frá Vestmannaeyingum að hér þarf þingheimur að taka höndum saman og reyna að láta þessa dýru framkvæmd skila þeim árangri sem ætlað var.