140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á títtnefndum landsfundi VG núna um helgina voru gerðar tvær ályktanir um heilbrigðisþjónustu og heilbrigðiskerfið. Annars vegar, með leyfi virðulegs forseta, var sagt:

„Sérstök áhersla er lögð á að standa vörð um þjónustuna á hinum minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og minnt á að öflug heilbrigðisþjónusta er ein af grunnstoðum búsetu um land allt. Fundurinn lýsir áhyggjum sínum yfir þeim mikla niðurskurði sem áfram er boðaður í heilbrigðiskerfinu og bitnar ekki síst á minni heilbrigðisstofnunum í dreifbýlinu sem sumar eru nú þegar illa leiknar.“

Í annarri ályktun er ályktað, með leyfi virðulegs forseta, gegn frekari niðurskurði í heilbrigðiskerfinu:

„Ljóst má vera að heilbrigðiskerfið er löngu komið að þolmörkum þar sem skorið var niður í málaflokknum undir einkavæðingarstefnu fyrri ára.“

Ég ætla ekki að gera kröfu til þess að vera talinn sérstakur löggiltur túlkandi tillagna VG, en í mínum huga er þetta samt nokkuð ljóst. Hér er sagt að ekki megi ganga lengra en þegar hefur verið gert í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Við miðum þá væntanlega við núverandi ástand, ekki það ástand sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu því að það er auðvitað ekki núverandi ástand. Þess vegna beini ég þeirri beiðni til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, formanns þingflokks VG, að hann útskýri fyrir mér hvernig túlka beri þessi orð ályktunarinnar. Þýðir þetta ekki að hér sé boðað að fallið verði frá áformum sem eru boðuð í fjárlagafrumvarpinu og þá alveg sérstaklega gagnvart minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni?

Ég spyr líka vegna þess að einn þeirra tillögumanna sem fluttu þessa tillögu á landsfundinum, fulltrúi VG í Skagafirði, Bjarni Jónsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar og formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, túlkar þetta þannig að ályktunin hafi verið mikill sigur að mati þeirra sem berjast gegn þessum niðurskurði á landsbyggðinni og hann segist ekki geta verið annað en bjartsýnn á að einhverjar leiðréttingar í ljósi samstöðunnar þar um sjáist gagnvart heilbrigðisþjónustunni.

Nú spyr ég hv. þingmann hvort hann deili þessum sjónarmiðum, þessari túlkun tillögumannsins, og hvort þetta sé þá fyrirboði þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) og ríkisstjórnarflokkarnir muni draga til baka sparnaðaráform sín, alveg sérstaklega gagnvart (Forseti hringir.) sjúkrastofnunum á landsbyggðinni.