140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

íslenskur ríkisborgararéttur.

135. mál
[14:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framsöguna í þessu máli. Breytingar sem kynntar eru til sögunnar í frumvarpi þessu snúast fyrst og fremst um hagræðingu vegna breyttra reglna um fjárhæðir sekta og leiðréttingar sem taldar eru nauðsynlegar vegna breytinga sem orðið hafa á lögum um útlendinga, sem er vel. Hér er um ívilnandi frumvarp að ræða. Þetta snýr að búsetutíma útlendings í hjúskap og í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara, þ.e. tímalengd, og loks ákveðnar tillögur er snúa að búsetuleyfum.

Mig langar til að spyrja ráðherrann þar sem hér er verið að rýmka þessar reglur og hækka sektargreiðslur og annað sem hefur verið t.d. þröskuldur fyrir þá sem hafa sótt um íslenskan ríkisborgararétt og í ljósi þess að fyrir þinginu liggur frumvarp frá mér sem snýr að valdheimild Alþingis til að veita ríkisborgararétt með lögum, sem er mjög nauðsynlegt að mínu mati: Styður þetta frumvarp ekki mjög mikið við mitt frumvarp vegna þess að núna eru þessar undanþágur rýmkaðar og er þá ekki ástæðulaust fyrir Alþingi að hafa þær valdheimildir sem eru til staðar samkvæmt núgildandi lögum? Er ekki rétt að frumvarp mitt um að Alþingi sleppi þessu valdi sínu fái afgreiðslu í þinginu þar sem í frumvarpi þessu er lögð til svo mikil rýmkun sem ráðuneytið hafði ekki áður og það sé þá á hendi framkvæmdarvaldsins að veita ríkisborgararétt?