140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:31]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu athyglisvert mál sem ég hef kynnt mér aðeins. Ég tel að vel komi til greina að skoða margvíslegar breytingar á því hvernig menn koma upplýsingum um áfengi til skila í þjóðfélagsumræðunni hvort heldur það er með auglýsingum eða umfjöllun í blöðum og öðrum fjölmiðlum. Ég hef hins vegar verið mjög hugsi yfir því hvort innlendir framleiðendur muni sitja við sama borð og erlendir framleiðendur á bjór svo dæmi sé tekið ef þessar breytingar verða að veruleika. Ég geld varhuga við því að verið sé að mismuna framleiðendum í þessu tilliti.

Erlendir framleiðendur munu eftirleiðis geta sýnt vöru sína í fjölmiðlum hér á landi nokkurn veginn hindrunarlaust á meðan skorður eru settur við því gagnvart innlendum framleiðendum. Eins mun það áfram gilda að erlendir framleiðendur munu geta sýnt og fjallað um vöru sína í tímaritum sem jafnvel eru gefin út af Íslendingum svo fremi sem þau séu einvörðungu gefin út í flugvélum.

Ég spyr því hæstv. innanríkisráðherra hvort hann og sveit hans í ráðuneytinu hafi skoðað það hvort þessar breytingar munu verða sérstaklega íþyngjandi fyrir innlenda framleiðendur en hampa á sama tíma erlendum framleiðendum. Það tel ég vera á vissan hátt óeðlilegt þó að ég sé því sammála í sjálfu sér að setja þurfi frekari skorður við óheftum áfengisauglýsingum, ekki síst þeim sem beint er að ungu fólki. En þessi þáttur málsins þarfnast skoðunar að mínu viti.