140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:35]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svarið að svo miklu leyti sem það nægði mér. Ég tel að þessar breytingar muni hafa íþyngjandi áhrif í för með sér fyrir innlenda framleiðendur og það verði áfram svo og reyndar bundið í lög að svo skuli þá vera. Gott og vel.

Ég tel hins vegar að mjög erfitt sé að banna það sem er í sjálfu sér ekki hægt að banna. Við búum við alþjóðlega fjölmiðlun. Á hverju heimili eru tugir sjónvarpsrása. Góður partur af þeim kemur utan úr heimi og þar geta menn fengið yfir sig alls konar skæðadrífu af auglýsingum, þar á meðal áfengisauglýsingar. Við búum við það kerfi að Íslendingar geta gefið út tímarit til dreifingar í flugvélum og komist þannig hjá þessum breytingum á lögum eftirleiðis, enda þótt breytingarnar verði lögteknar. Þess vegna spyr maður: Er hægt í reynd að banna það sem í nútímasamfélagi er ekki hægt að banna? Er hér ekki einvörðungu verið að reyna að sækja að ákveðnum framleiðendum í stað þess að taka á þeim öllum? Við erum ekki að taka á öllum áfengisauglýsendum með þessum breytingum á lögum, einvörðungu þeim sem framleiða slíka vöru innan lands. Ég tel að hæstv. ráðherra sé sammála mér um þá skilgreiningu.