140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var dæmi um hina frábæru umræðuhefð hér á þingi. Ég hefði óskað þess að hv. þingmaður hefði hlustað á það sem ég var að segja. Ég er að óska eftir því að lögð verði fram sú áfengisvarnastefna sem er verið að vinna að. Við höfum haft spurnir af því að verið sé að vinna að áfengisvarnastefnu. Mín eina ósk var í rauninni í þá veru að menn biðu með þetta mál uns þessi áfengisvarnastefna lægi fyrir þannig að hægt væri að taka heildstætt á málum. Hvað er að því? Á endalaust að vera í þessum bútasaumi eins og ég talaði um? Mér finnst það ekki í lagi.

Talandi um það sem við gerðum í ríkisstjórn. Það er margt vont en eitt og annað heppnaðist, m.a. forvarnir í grunnskólum sem var markvisst tekið á. Ég held að það sé einmitt gott dæmi um hvernig hægt er að vinna málin með upplýsingum og forvörnum þvert yfir skólastigin og byggja upp kennaramenntun og skólakerfið. Við sjáum fram á raunhæfan markvissan árangur í grunnskólum landsins þar sem áfengis- og vímuefnaneysla hefur snarminnkað. Mér finnst það glæsilegur árangur. Þess vegna verðum við að halda áfram þessum forvörnum og þessum upplýsingum alveg upp í framhaldsskólann. Þannig eigum við að vinna þetta og vinna betur saman.

Mér er alveg sama hvaða málalengingar og hugsanlegan dónaskap hv. þm. Mörður Árnason kemur með hingað upp í ræðustól, við erum sammála um eitt. Reynum að hugsa um eitthvað sem sameinar okkur. Það sem sameinar okkur hv. þm. Mörð Árnason er að við viljum bæði vinna gegn óheilbrigðri áfengisneyslu í landinu. Á það hefur ekki reynt. Á viðleitni alls þingheims til að vinna í slíka veru hefur ekki reynt af því menn hafa einfaldlega ekki haft viljann til þess að vinna saman.