140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta svolítið undarleg umræða. Það sem ég fæ út úr framsöguræðu og andsvörum hv. þingmanns er að það þurfi að tala saman, það þurfi að móta heildstæða stefnu. Hún segir að það hafi ekki verið talað saman, það séu ekki komnar fram tillögur.

Ég er að tala fyrir tillögum, ég er að vísa í stefnu, ég er að færa rök fyrir máli mínu, en eina framlag hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er að segja að einmitt þetta höfum við ekki gert. Það er framlag hennar til umræðunnar. Þegar spurt er einfaldrar spurningar um grundvallaratriði, hvort leyfa eigi áfengisauglýsingar eða ekki, fáum við engin svör heldur einvörðungu almennt tal af þessu tagi.

Nú fer málið væntanlega til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar gefst mönnum kostur á því að kalla til eina ferðina enn sérfræðinga, fulltrúa heilbrigðisyfirvalda og annarra sem láta sig varða þessi mál og fara yfir þau eins og hér hefur verið gert ár eftir ár og alltaf vísað í þá stefnu sem er við lýði og þau lög sem við búum við en eru brotin og við erum að gera tilraun til að laga.

Aðeins eitt í lokin, áfengisauglýsendum er ekki mismunað en það má segja að fjölmiðlum sé mismunað vegna þess að erlendir fjölmiðlar hafa heimildir til að birta áfengisauglýsingar en innlendir ekki. Áfengissöluaðilarnir eiga sömu möguleika, a.m.k. hvað formið snertir, á að koma auglýsingum sínum á framfæri.