140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið hálfeinkennilegt að fylgjast með umræðunni um þetta mál hingað til. Það er eins og maður sé mættur í matarboð hjá hjónum sem hafa staðið í einhverju rifrildi í mörg ár. Hér er umræðan tengd við hluti eins og hverjir sátu í hrunstjórninni. Ég efast um að það hverjir sátu þá í stjórn hafi haft óskaplega mikið að gera með áfengislögin sem við ræðum hér.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Þuríði Backman um nokkur atriði. Í fyrsta lagi, telur þingmaðurinn ástæðu til að við í allsherjar- og menntamálanefnd leggjum áherslu á að fá forvarnastefnuna sem verið er að vinna að núna, áður en við afgreiðum þetta mál út úr nefndinni?

Ég mundi líka vilja spyrja hv. þingmann hvort hún deili áhyggjum mínum um að Neytendastofa sé hugsanlega ekki nógu sterk eða öflug stofnun og hafi ekki nægar fjárveitingar til að geta í raun sinnt þeim verkefnum sem henni eru hér falin.

Í þriðja lagi skal ég viðurkenna að ég hef nokkra samúð með þeim sjónarmiðum sem komu fram við vinnslu málsins á síðasta löggjafarþingi, áhyggjum af áhrifum á þá nýsköpun sem hefur átt sér stað í framleiðslu á innlendu áfengi, bjór og sterkari drykkjum, og þeirri ábendingu að í raun væri verið að skaða samkeppnisstöðu þessara vara gagnvart erlendum vörum. Sér þingmaðurinn einhverja leið til þess að við getum í raun staðið við það sem er náttúrlega markmið þessara laga á einhverjum öðrum vettvangi? Gæti t.d. ÁTVR beitt sér fyrir því að vera frekar með innlenda framleiðslu en erlenda? Eða eru einhverjir möguleikar, t.d. í gegnum iðnaðarráðuneytið, á að styðja betur við bakið á þeirri nýsköpun í sveitum landsins sem hefur gengið að mörgu leyti ágætlega og verið áhugaverð?