140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:19]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka spurningarnar. Varðandi forvarnastefnuna hefði ég talið að það hefði verið mjög æskilegt að sú vinna væri langt komin og henni væri að ljúka. Því miður veit ég ekki hvar sú vinna stendur en mér finnst sjálfgefið að nefndin kalli eftir því hjá ráðuneytinu hvort fyrirhugaðar séu einhverjar breytingar á auglýsingabanninu. Ef við fáum þau svör að ekki sé fyrirhugað að heimila áfengisauglýsingar þá dugar mér það í raun og veru hvað þetta frumvarp varðar, þá stendur það. Við þurfum bara að gera það þannig að það virki.

Hvað varðar Neytendastofu þá hef ég vissulega nokkrar áhyggjur af því að þetta verkefni geti verið nokkuð stórt fyrir hana. Ég tel að það verði bara að koma í ljós hvernig hún getur sinnt þeim störfum og það þurfi þá að styrkja hana sérstaklega til þess. Lögreglan hefur átt í erfiðleikum með þetta og við vitum það. Þetta er tilraun eða að minnsta kosti viðleitni til að koma eftirlitinu í annan farveg. Ég tel að Neytendastofa geti verið vel fallin til þess, með tilliti til starfa hennar, en hún þarf þá að hafa burði til þess.

Nýjar tegundir. Ég verð að segja að eins og ég hef kynnst því hef ég ekki þurft neinar áfengisauglýsingar til að kunna að meta nýjar íslenskar tegundir og nýja framleiðendur. Ég ætla ekki að nefna neinar tegundir, þær hafa kynnt sig sjálfar.