140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:23]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, það er ekki nægilegt að vera með forvarnir eingöngu í grunnskólunum, hvorki hvað varðar áfengi né tóbak. Það þarf að fylgja því upp í framhaldsskólana líka. Þetta þarf að vera lifandi fræðsla. Ég tel brýnt að sá þáttur sé inni í þeirri stefnumótun sem verið er að vinna.

Það er athyglisverð hugmynd sem hér hefur komið fram, hvort ÁTVR geti kynnt innlenda framleiðslu sérstaklega, verið í einhvers konar markaðsátaki. En eins og lögin eru núna á ÁTVR að gæta jafnræðis og þarf að fara eftir ákveðnum og mjög takmarkandi reglum um kynningu á íslenskri framleiðslu.

Ég vil líka varpa fram þeirri spurningu hvort ekki þurfi að skoða og endurskoða þær reglur sem ÁTVR fer eftir í dag. Það eru markaðsráðandi aðilar á þessum markaði, sérstaklega innflytjendur og stærstu framleiðendurnir hér á landi, sem eru farnir að teygja sig ansi langt inn á markaðinn til að hafa áhrif á það, utan ÁTVR, hvaða vörur eru í boði, hvernig þær eru kynntar og hvernig þær eru til sýnis í áfengisverslunum og hvaða tegundir eru til sölu á veitingastöðum. Þannig að það er ekki alveg hreint hægt að tala um jafnræði. Það er umhugsunarvert hvað fáir markaðsráðandi aðilar hafa tögl og hagldir á neyslunni eða tegundunum.