140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ef ég hefði verið á þingi árið 1989 þegar stefnt var að því að lögleiða bjór hefði ég væntanlega sagt já í þeirri atkvæðagreiðslu sem þá átti sér stað og leiddi til þess að leyft var að drekka bjór þann 1. mars 1989. Ég er líka alveg viss um að ég hefði verið úthrópaður sem talsmaður aukinnar áfengisneyslu og að ég væri að auka á vandann. Þannig var umræðan á þeim tíma. Mér finnst sú breyting sem hér er til umræðu einhvern veginn vera í sömu átt, að þeir sem vilji ekki breyta lögunum heldur hafa þau eins og þau eru séu um leið mæla fyrir aukinni áfengisneyslu. Ég vil fullvissa alla um að það geri ég ekki. Eins og mér fannst það ósanngjarnt á sínum tíma að banna bjórinn en leyfa sterkari drykki, finnst mér fáránlegt að banna innlendum framleiðendum að auglýsa þó ekki sé nema léttölið. Sama hvað menn segja, það mun skerða samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja.

Við sem horfum á fótbolta og höfum gaman af enska boltanum komumst ekki hjá því að sjá aragrúa af erlendum bjórauglýsingum og alls kyns öðrum auglýsingum sem jafnvel eru bannaðar hér á landi. Ég held að enginn sem hér situr sé að leggja það til að banna beinar útsendingar frá knattspyrnuleikjum eða banna þá velli sem auglýsa bjór á einhvern hátt eða þar sem lið eru með einhvers konar bjórauglýsingar á búningunum sínum. Ef við ætlum að banna léttölsauglýsingar, eins og hér er lagt til, gerum við í raun erlendum bjór hærra undir höfði en þeim innlenda. Við skulum átta okkur á því að innlenda framleiðslan skapar störf, hún skapar umsvif og skilar tekjum inn í ríkissjóð. Ég held að við eigum einfaldlega að hafa lögin eins og þau eru.

Ég hef ekki heyrt umræðu um það í þjóðfélaginu að ganga eigi lengra en nú er gert. Ég sé hvergi rökstuðning fyrir því í frumvarpinu að þetta bann leiði á einn eða annan hátt til minnkandi áfengisdrykkju þó við séum öll sammála um að hana beri að takmarka. Ég held reyndar að gera eigi það með forvörnum, auknu framlagi til forvarna á ýmsan hátt. Sama má segja um bjórinn, ef við mundum banna hann í dag held ég að við værum að taka stóran hluta af menningu landsins. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að flestir þeirra sem neyta öls á einhvern hátt ráða við þá drykkju, jafnvel þó einhverjir ráði ekki við hana sem er miður.

Í frumvarpinu er lagt til að í stað núgildandi 20. gr. laganna komi nýtt ákvæði sem þó er að nokkru leyti sambærilegt því ákvæði sem nú er í gildi. Þannig verði tiltekið í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna að hvers konar auglýsingar og önnur viðskiptaboð til markaðssetningar á áfengi og einstökum áfengistegundum sé bönnuð. Þá er í 1. mgr. lagt til annað nýmæli sem kveður á um að framangreint bann nái einnig til vökva eða vöru sem er undir 2,25% af hreinum vínanda ef um er að ræða markaðssetningu í umbúðum sem geta skapað hættu á ruglingi milli áfengu vörunnar og hinnar óáfengu. Markmið þessarar breytingar er að girða fyrir að hægt sé að auglýsa óáfenga framleiðslu með svo sterkri skírskotun til hinnar áfengu framleiðslu að í raun verði ekki dregin önnur ályktun en sú að verið sé að auglýsa hina áfengu vöru.

Ég mundi vilja sjá úttekt á þessu, virðulegi forseti. Ég held að flestir sem sjá áfengisauglýsingu þar sem léttöl er auglýst átti sig á því að um léttöl sé að ræða. Það má vel vera að einhverjir misskilji auglýsinguna á einn eða annan hátt, en ég mundi vilja sjá úttekt á þessu. Ég tel ekki nóg við lagabreytingu eins og þessa að rökstuðningurinn sé ekki annar en „ekki verður dregin önnur ályktun en sú“. Ég held að við eigum að vanda okkur betur en það við lagasetningu og nota ekki röksemdir sem þessar.

Í 4. mgr. ákvæðisins eru taldar upp undantekningar frá banninu samkvæmt lögum. Í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Nauðsynlegt þykir að bæta við upptalningu núgildandi 4. mgr. 20. gr. laganna, en frá því að lögin voru sett árið 1998 hefur samfélagið mikið breyst. Í ákvæðinu eins og það er nú er þannig ekkert tekið á erlendum endurvarpsútsendingum frá ríkjum ESB, kynningum og útstillingum á sölustöðum, svo sem í ÁTVR og á öldurhúsum, merkingum á öldurhúsum, vörulista ÁTVR sem gefinn er út og vefsíðu.“

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, eins og ég skil þetta nær bannið í rauninni bara til þeirra sem framleiða bjór, vegna þess að þetta eru náttúrlega fyrst og fremst bjórframleiðendur. Við getum nefnt að í mínu kjördæmi er Viking Brugg, sem er stórt og mikið fyrirtæki sem margir vinna hjá, og Bruggsmiðjan, lítið nýsköpunarfyrirtæki sem hefur náð ótrúlegum árangri með sína vöru en þó í samkeppni við erlendu risana sem hafa fjármagn og tæki til þess að auglýsa á búningum fótboltaliða og í blöðum sem flestir Íslendingar lesa. Hvað gerist, virðulegi forseti? Jú, þessi íslensku fyrirtæki munu eiga mun erfiðara uppdráttar en áður. Það liggur einfaldlega fyrir.

Eins og ég sagði áðan tel ég ekki ástæðu til að breyta ákvæðinu og ég sé hvergi nægjanleg rök fyrir því í frumvarpinu. Við eigum hins vegar að taka þá umræðu hvort við þurfum að auka forvarnir. Það er grafalvarlegt mál ef áfengisneysla unglinga hefur aukist. Ég sé ekki að þetta bann mun koma í veg fyrir það. Ég sé hvergi færð rök fyrir því að slíkt muni gerast og ég held að það sé einfaldlega ekki nóg að nota orðalag eins og „má leiða líkum að“ og „ef til vill“.

Á bæklingi sem gefinn er út hjá Umhverfisstofnun er að finna auglýsingu á byssu á bakhliðinni. Það er ríkisstofnun sem auglýsir haglabyssur sem notaðar eru til skotveiða. Eftir því sem ég best veit er ekki bann við svona auglýsingum en ég held að við getum verið sammála um að við eigum að setja takmarkanir við byssum og almennri byssueign. Við bönnum það samt ekki alveg. Eru þau lög frábrugðin þeim sem við ræðum hér í dag? Ætla hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem mæla fyrir þessu að leggja til að það verði bannað? Hér gilda sterkar takmarkanir á byssueign, sem betur fer, um það eru skýr og mikil lög, en það er ekki bannað að auglýsa byssur. Ég held að við eigum að velta þessu fyrir okkur vegna þess að hér eru ekki mjög margir innlendir byssuframleiðendur, afar fáir, þó að þeir hafi nú verið til hér einu sinni. Ég veit ekki hvort einhverjir séu til enn þá.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef komið inn á held ég að í þessu frumvarpi felist því miður forræðishyggja sem beinist eingöngu að innlendum framleiðendum, að fólki víðs vegar um landið sem vinnur við það að framleiða þessa drykki í samkeppni við erlenda aðila. Ég held að við eigum ekki að skerða samkeppnisstöðu þeirra meira en nú er gert í lögunum. En að því sögðu vil ég taka skýrt fram að við eigum að auka forvarnir. Við eigum að leita leiða til þess að minnka áfengisdrykkju, sérstaklega hjá unglingum, en við eigum að nota önnur tæki en þessi. Við eigum að minnsta kosti að færa betri rök fyrir því en gert er í þessu frumvarpi. Ég vona að allsherjar- og menntamálanefnd fjalli málefnalega um þetta og skoði hvort raunverulega sé þörf á því að breyta lögunum.