140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég bað um andsvarið þegar ég hélt að hv. þingmaður væri fylgjandi ástandinu eins og það er — hann er fylgjandi því að auglýsingar á sterkum bjór séu leyfðar í sjónvarpi og dagblöðum og annars staðar, hreinar áfengisauglýsingar sem þetta auðvitað eru. Það er ekkert matskennt við það. Sá siður hefur skapast að túlka lögin á þann veg að ef einhvers staðar stendur léttbjór í hálfa sekúndu síðast í sjónvarpsauglýsingu — sem getur þess vegna verið á eftir barnatíma eða á kjörtíma í fréttum, og sérstaklega eru þær vinsælar með íþróttum — eða með átta punkta letri í dagblaðsauglýsingu, þá sé það í lagi.

Ég ætlaði satt að segja að fara að draga dár að þingmanninum fyrir þetta en síðar í ræðunni kom í ljós að hann virðist vera sömu skoðunar og Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri af hans toga — sem ég harma að geta ekki kallað háttvirtan en geri bara samt, háttvirtan og ágætan fyrrverandi og verðandi þingmann Sigurð Kára Kristjánsson — að leyfa eigi auglýsingar á áfengi. Ég vil bara fá að heyra meira um þetta. Hv. þingmaður gerir ráð fyrir að fyrirtækin borgi þá í einhvers konar forvarnasjóð. Hvaða hugmyndir hefur hann um það? Er það bara bjór? Hvers eiga þá rauðvínsunnendur að gjalda? Eru það þá ekki sterk vín líka, eða allt áfengi? Að menn hafi það eins og hverja aðra vöru gegn því að einhver hluti af tekjum vegna auglýsingarinnar renni þá í forvarnasjóð eða að sérstakur skattur verði lagður á framleiðendur þessarar vöru? Hv. þingmanni finnst þetta sem sé í lagi og er baráttumaður fyrir því. Ég skil það þannig þar til hann skýrir þetta betur.