140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég tel miklu betra að lýsa því yfir hreinskilnislega og opinberlega að hv. þingmanni finnist það vel koma til greina að leyfa áfengisauglýsingar. Hann vill hafa ákveðnar takmarkanir, þær þarf hann þá að rökstyðja, að það séu ekki sterkir drykkir og það sé ekki gert í kringum íþróttir. En hann vill sem sé leyfa áfengisauglýsingar og það er algjörlega heiðvirt sjónarmið vegna þess að þá er hann á móti þeim lögum sem nú gilda. Hann vill sem sé afnema 20. gr. og fleiri greinar í gildandi lögum og setja þar eitthvað annað. Það finnst mér vera sjónarmið sem hægt er að ræða.

Það sem mér finnst ekki hægt að ræða er það að verja hlutina eins og þeir eru núna, að verja ástand þar sem farið er fram hjá lögunum, þar sem menn bora sér í gegnum gatið til að skapa ástand í áfengisauglýsingum sem er verra, af því að ekkert eftirlit er með þessum auglýsingum, en mjög víða í kringum okkur, jafnvel þar sem auglýsingar eru leyfðar. Ástandið er til dæmis verra en í Frakklandi, sem er þó einna mest vínlanda í okkar heimshluta. Þar eru vissulega leyfðar áfengisauglýsingar enda hefur vín lengi verið þar á borðum sem venjuleg neysluvara af tilteknum ástæðum sem ég hef því miður of lítinn tíma til að fara út í en vildi gjarnan gera. Ég vil bara segja: Áfengisauglýsingar í Frakklandi eru takmarkaðri en áfengisauglýsingar á Íslandi. Það er ástandið og úr því þurfum við að bæta. Til þess er þetta frumvarp lagt fram og ég styð það. Ég bið hins vegar andstæðinga þessa máls, þá sem eru á hinni skoðuninni, að leyfa eigi áfengisauglýsingar á Íslandi, að koma hreinskilnislega fram, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur gert, og setja þá skoðun fram.

Ég vil þá líka spyrja fulltrúa þeirra sjónarmiða: Af hverju eru tóbaksauglýsingar ekki leyfðar? Hvernig stendur á því að tóbaksauglýsingar eru ekki leyfðar? Er ekki rétt að taka líka upp baráttu fyrir tóbaksauglýsingum? Það er mismunun á markaði að leyfa þær ekki og þó að ekki séu til innlendir tóbaksframleiðendur má vel koma þeim (Forseti hringir.) fyrirtækjarekstri upp, svo sem í kjördæmi hv. þingmanns, og þá er allt gengið upp í hinum besta heimi af öllum mögulegum heimum.