140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[16:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001.

Viðræður hafa staðið yfir við landshlutasamtök sveitarfélaga um gerð samnings um að þau skipuleggi almenningssamgöngur í sínum landshluta og taki yfir verkefni og fái til þess styrki sem áður runnu til sérleyfisaksturs í umsjón Vegagerðarinnar. Markmiðið er að nýta þá fjármuni betur um leið og stutt er betur við almenningssamgöngur á landsbyggðinni.

Nokkur ákvæði núgildandi laga koma í veg fyrir að þessi tilhögun nái markmiðum sínum um aukna hagkvæmni og skilvirkni almenningssamgangna. Því er mikilvægt að gera þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til sem allra fyrst svo unnt verði að ljúka samningsgerð með tilheyrandi úrbótum á almenningssamgöngum milli sveitarfélaga.

Breytingarnar eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er lagt til að tekin verði af tvímæli um að heimilt sé að veita landshlutasamtökum sveitarfélaga einkaleyfi til allra almenningssamgangna á sínu svæði hvort sem er innan svæðisins eða út fyrir það. Vafi þykir leika á að slíkt sé heimilt miðað við núverandi orðalag laganna. Í öðru lagi er tekið sérstaklega fram að einkaleyfishafi geti eins og sérleyfishafi notað bifreiðar sem gerðar eru fyrir átta farþega og færri. Í þriðja lagi er lögð til sú breyting að samræma hugtökin einkaleyfi og sérleyfi og fá þannig samræmi í lagatextann en með því eru tekin af tvímæli um að heimilt sé að veita einkaleyfi á tilteknum leiðum eins og venja er þegar um sérleyfi er að ræða. Í ljósi þess að einkaleyfi og sérleyfi hafa sama tilgang, þ.e. að tryggja einkarétt til reglubundinna fólksflutninga, þykir rétt að taka af öll tvímæli um að sömu reglur gildi um þessi leyfi.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar að lokinni umræðu í dag.