140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú sem hér stendur hefur kynnt sér minnisblaðið. Það er rétt að þar kemur fram, og það er mat þeirra sem sömdu það minnisblað, að töluverður kostnaður sé af því a.m.k. til skemmri tíma að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Það kemur einnig fram í því minnisblaði að „kostir við flutning eru helst þeir að með viðveruvöktum og tilheyrandi fjölgun áhafna þyrla mundi starfsemin eflast auk þess sem aðstaða Landhelgisgæslunnar yrði betri við flutning til Keflavíkurflugvallar, sérstaklega aðstaða flugdeildar.“ Þetta er bein tilvitnun í minnisblaðið.

Ég vil halda áfram, með leyfi forseta:

„Að mati Landhelgisgæslunnar fælist helsti ábati við flutning í framtíðaráformum með starfsemina varðandi aukin verkefni og víðtækari starfsemi.

Þessi úttekt horfir eingöngu til fjárhagslegra áhrifa en horfa þarf til annarra þátta þegar tekin verður ákvörðun um mögulegan flutning Landhelgisgæslunnar, sérstaklega til áhrifa flutnings á öryggismál.“

Lögð er áhersla á það í minnisblaðinu að öryggissjónarmið eru ekki hluti af hagkvæmniathuguninni en þau vegi hins vegar þungt við ákvarðanatöku um flutning, enda er það hlutverk Landhelgisgæslunnar að sinna öryggisgæslu og björgun.

Virðulegi forseti. Einnig kemur fram í minnisblaðinu að að mati Landhelgisgæslunnar væri æskilegt að öll starfsemi væri á einum stað, þ.e. skrifstofa, stjórnstöð, lager o.s.frv. Og það er líka það sem við leggjum áherslu á, flutningsmenn þingsályktunartillögunnar, að til framtíðar og með auknum verkefnum og samlegðaráhrifum vegna verkefna sem Varnarmálastofnun sinnti áður yrði (Forseti hringir.) starfsemin mun öflugri en vissulega kostnaðarsöm í byrjun.