140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég veit að við eigum að fara varlega í að gera athugasemdir hér á þinginu. Oft stendur maður hér og kann að lenda í því að kasta steinum að öðrum og það úr glerhúsi. Ég verð samt að leyfa mér að ítreka gagnrýni mína á þessa tíu þingmenn Suðurkjördæmis, þá hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Ragnheiði E. Árnadóttur, Sigurð Inga Jóhannsson, Atla Gíslason, Oddnýju G. Harðardóttur, Unni Brá Konráðsdóttur, Eygló Harðardóttur, Róbert Marshall, Árna Johnsen og Margréti Tryggvadóttur, fyrir að taka í þingmáli sínu, hvorki í greinargerðinni né í framsöguræðu 5. flutningsmanns, sem einn er staddur hér og ég gagnrýni það líka — hvar eru hinir níu?

Hvernig stendur á því að þeir eru ekki hér til taks þegar verið er að ræða mál sem hefur vissulega verið mjög í umræðu, bæði í kjördæmi þeirra, hér á þinginu og almennt, og varðar hagsmuni allra Íslendinga og þó einkum þeirra sem á sjónum vinna, og annarra þeirra sem geta lent í því að þurfa á aðstoð Landhelgisgæslunnar að halda — að þeir skuli ekki vera hér? En þó einkum að þeir skuli láta sér sæma að endurflytja frumvarp frá í fyrra algjörlega óbreytt eftir alla þá umræðu sem farið hefur fram um það og eftir að komið hefur út skýrsla, hagkvæmniathugun frá fyrirtæki sem heitir nafni sem ég nenni ekki að bera fram hér, sem sömu þingmenn hafa gagnrýnt hér í stólnum, haft um að mig minnir það sem þá hét utandagskrárumræður og komið upp um störf þingsins til að gagnrýna en minnast ekki á einu orði í greinargerðinni. En það kemur fram að hægt er að lesa úr þessari sömu hagkvæmniathugun hér í andsvari í eina og hálfa til tvær mínútur vegna þess að um það er beðið. Mér finnst þetta skrýtið. Mér finnst þetta ekki vera sú samræða sem á að fara fram hér á þinginu um alvörumál af þessu tagi og ef ég má bæta því við þá finnst mér það ekki sæmandi fyrir tíu þingmenn eins kjördæmis sem eru að heimta það með þessari tillögu að ríkisstofnun verði tekin úr höfuðborginni, þar sem hún er núna og veitir þar vinnu, og sett niður í öðru kjördæmi vegna þess fyrst og fremst — nú skal ég fara varlega — vegna þess meðal annars að þar vanti atvinnu, það er nefnt sem sérstök rök í þessu máli.

Ég verð fyrir vonbrigðum með þetta og endurtek gagnrýni mína á þá þingmenn sem hér um ræðir. Ég tel að við eigum að bera það mikla virðingu hvert fyrir öðru, fyrir almenningi og fyrir fólki sem vinnur á þeim stöðum sem þingmenn leggja til að verði selfluttir hingað og þangað, að bæta vinnubrögð okkar í þessu efni.

Ég vil segja það líka að það er ekki bara þessi hagkvæmniathugun heldur kom fram í þeirri umræðu sem ég vitnaði hér til áðan, þar sem bæði sá sem hér stendur og hv. þm. Birgir Ármannsson, sem báðir eru þingmenn Reykjavíkurkjördæma, fluttum ræður og komum með ýmis rök og ýmsar spurningar sem mér hefði fundist að hefði átt að svara, ef ekki þá, þá að minnsta kosti núna, og hefur ekki verið gert. Ég bara spyr enn: Er merking með þessu, er raunveruleg merking með þessari tillögu tíu þingmanna Suðurkjördæmis eða er þetta fyrst og fremst flutt til þess að geta barið sér á brjóst í héraði, geta sagt sveitarstjórnarmönnum, geta sagt atvinnulausu fólki í Keflavík og þar í kring, að þeir hafi nú reynt, þeir hafi nú flutt þessa tillögu tvisvar sinnum? Já, þeir hafa gert það en þeir hafa ekki fært þau rök og fylgt málinu fram með þeim þrótti að það nái nokkrum árangri, að minnsta kosti ekki á þann málefnalega lýðræðislega hátt sem maður stundum í draumum sínum ætlast til að sé viðhafður á Alþingi Íslendinga og í samfélaginu sem við höfum verið að reyna að burðast við að hafa lýðræðislegt og þinglegt í nokkra tugi ára og hefur gengið misjafnlega.

Ég hef ekki langan tíma til stefnu en ég vil endurtaka í stikkorðastíl, símskeytastíl, nokkuð af því sem ég sagði hér um þetta síðast og kannski bæta við einni setningu eða tveimur.

Í fyrsta lagi: Ég sagði það í áðurnefndri umræðu, og í fleiri umræðum hér á þinginu um nákvæmlega þetta mál, að ég teldi að skilyrði fyrir því að Landhelgisgæslan yrði flutt úr Reykjavík til Reykjanesbæjar eða Keflavíkurflugvallar eða á Suðurnes, á Útnes, eins og það hét í gamla daga, sé það að hagkvæmniskilyrði séu hiklaus og óefanleg. Það sé óefanlegt að þetta sé hagkvæmt auðvitað til lengri tíma litið, ekki er við því að búast að þetta verði hagkvæmt á einu ári, og að við getum alveg hiklaust gengið að því að þannig sé það.

Skýrslan frá því í apríl 2011 bendir ekki til þess. Það er undarlegt að þau rök skuli ekki koma fram ef þau eru til sem mæla þá á móti rökum skýrslunnar, því að þau eru ekki hér í greinargerðinni og þau voru ekki í framsögu hv. 5. flutningsmanns tillögunnar.

Ég segi það enn og aftur að mér finnst skilyrði þess að þetta sé gert sé klárlega það að haft sé samráð við forustumenn í því sveitarfélagi þar sem stofnunin er nú, í Reykjavík, haft samband við stjórnvöld í því sveitarfélagi, við borgarstjórnina, við borgarstjórann og borgarfulltrúana og embættismenn í sveitarfélaginu, og líka við forustumenn í verkalýðshreyfingunni í þessu sveitarfélagi, bæði þá sem beint koma að málinu og líka þá sem almennt veita þeirri hreyfingu forstöðu. Mér finnst skrýtið að ekkert er á það minnst hér að þetta þurfi að gera og ekkert minnst á það í greinargerðinni hvernig þessu máli sé varið. Þar er heldur ekki minnst á það hvað starfsmenn Landhelgisgæslunnar kunni að hafa um þetta að segja, en það er einmitt rakið í hagkvæmniathuguninni sem vitnað var í áðan, og ég er að tala um, að margir þeir sem vinna við Landhelgisgæsluna eru sérhæfðir starfskraftar og ekki hægt að fá aðra slíka ef þeir fylgja ekki með í þeim flutningi sem hér stendur til.

Ég hef þegar drepið á þann punkt að þegar atvinnuleysi á Suðurnesjum, á Útnesjum, er borið við, að þangað þurfi að flytja heilar stofnanir, verða menn líka að gera sér grein fyrir því að í Reykjavík og nærsveitum er það ekki þannig að þar sé eftirspurn eftir vinnuafli, það er líka atvinnuleysi hér. Það eru líka borgaðar atvinnuleysisbætur í Reykjavík þó að það vandamál sé sem betur fer nokkru minna en á Útnesjum. Um þetta er heldur ekkert fjallað í greinargerðinni.

Ég vil svo kannski, af því að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur heyrt þessi rök áður og reyndar fleiri sem komnir eru í salinn, segja þetta: Ég stend í sjálfu sér ekki á móti því að Landhelgisgæslan verði flutt á Útnes eða að minnsta kosti hlutar hennar. Ég tel til dæmis skynsamlegt að undirbúa flutning flugflotans á Keflavíkurflugvöll vegna þess að hann er ekki í góðu standi á Reykjavíkurflugvelli og vegna þess að á Reykjavíkurflugvelli á önnur brautin að leggjast af 2016 og hin líklega 2024 þannig að ekki er seinna vænna að fara að undirbúa það. Og ég tel að flugflotinn sé betur niður kominn þar en hér. En það er ekki þannig að stofnun eins og Landhelgisgæslan komist fyrir í einni skrifstofu eins og ætla mætti af greinargerð flutningsmanna. Landhelgisgæslan er í allmörgum pörtum og ég held að ekki sé um það að ræða, þó að það komi til greina að íhuga betri staðsetningu á ákveðnum hlutum hennar, að taka hana alla og setja hana alla niður í einu húsi hvar sem það hús ætti að vera.

Ég vil líka segja þetta, af því að það er mál hér á eftir sem varðar höfuðborg Íslands, að það er eðli höfuðborgar, það er grunnkjarni höfuðborgar, að þar sé miðstöð stjórnsýslunnar. Af hverju ætti sú miðstöð að vera annars staðar? Það er miklu verra fyrir þá sem vinna við stjórnsýsluna sjálfa en ekki síður fyrir þá sem eiga að njóta stjórnsýslunnar.

Ég vil líka segja þetta: Það að rjúfa það samstarf sem hefur tekist í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð, og allir hrósa, er ábyrgðarhluti. Það er undarlegt að þingmenn Suðurkjördæmis, sem sitja hér þrír fyrir framan mig, allir mjög háttvirtir, skuli ekki minnast á þetta í greinargerðinni og í þeirri umræðu sem hér hefur verið í gangi um þetta mál.

Það er best að ræða þetta ekki frekar, ég hef komið skoðun minni á framfæri. Það er ekki þannig að ég sé á móti málinu í sjálfu sér. Ég vil hins vegar segja þingmönnum Suðurkjördæmis að það eru líka til þingmenn í Reykjavíkurkjördæmum, þau eru tvö, þeir eru 22. Þeir hafa líka sitt að segja. Það er líka atvinnuleysi í Reykjavíkurkjördæmunum. Reykjavíkurkjördæmi tekur til höfuðborgar Íslands, það er rétt að menn viti það, geri sér grein fyrir því.

Ég vil líka segja, bara endurtaka, ítreka enn einu sinni — nú ætlar Árni Johnsen að taka til máls en hv. þingmaður fær nú allan daginn hérna á eftir — (Forseti hringir.) að skilyrði þessa flutnings er af minni hálfu það að hagkvæmnin sé hiklaus og óefanleg. Það skilyrði (Forseti hringir.) er ekki uppfyllt í þessari greinargerð og sú athugun sem farið hefur fram bendir til þess að það sé ekki svo.