140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Hér hefur margt ágætt komið fram og margt sem við erum sammála um. Hv. þingmaður sagði að sú könnun sem gerð var á því að flytja Landhelgisgæsluna frá Reykjavík til Suðurnesja hefði hvorki verið fugl né fiskur. Ég er ekki sammála því en við þurfum að setja hana í rétt samhengi. Samhengið er skammtímahugsun. Það sem skoðað var hvað það mundi kosta að færa Landhelgisgæsluna frá Reykjavík til Keflavíkur á skömmum tíma. Það var hugsunin.

Ef rýnt er í skýrsluna er tilkostnaðurinn að uppistöðu til rekstrarkostnaður sem byggir á vöktum, aukavöktum og öðru slíku. Það er grundvallarmálið. Hitt er annað mál, eins og hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Marðar Árnasonar, að þegar litið er til langs tíma kann annað að blasa við í stöðunni vegna þess að við núverandi aðstæður duga flugskýlin á Reykjavíkurflugvelli ágætlega þeim þyrlukosti sem við búum við en þau mundu ekki gera það við eðlilegar aðstæður ef við værum með þrjár jafnvel fjórar þyrlur.

Það er eitt í umræðunni sem ég held að hafi verið skaðlegt fyrir hana, að menn hafa hugsað flutning á stofnunum sem svart/hvítt viðfangsefni, annaðhvort eða. Það á frekar að líta á stofnun sem starfsemi þar sem einn þáttur getur flust til þótt öll starfsemin geri það ekki. Ef okkur tekst að greina (Forseti hringir.) umræðuna niður í slíka efnisþætti held ég að menn geti farið að nálgast hver annan. (Forseti hringir.) Ég hef aldrei slegið út af borðinu þá hugsun að flytja Landhelgisgæsluna eða hluta hennar, síður en svo.