140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, það var nefnt í samhengi við atvinnuástandið til skamms tíma. En hver nefndi það? Það var ríkisstjórn Íslands sem hélt fund í Víkingaheimum, hún sagði að kanna yrði hagkvæmni þess að flytja Gæsluna til Reykjanesbæjar sem eitt af úrræðunum til að styrkja stöðu svæðisins, það er alveg rétt. Sú viljayfirlýsing vakti óneitanlega vonir á Suðurnesjum og var það tengt við atvinnuástandið. Það er því mjög súrt í broti að menn komi núna og segi: Það þýðir ekkert að horfa á þetta til skamms tíma, þegar uppleggið hjá sjálfri ríkisstjórninni var að leggja málið fram með þeim hætti.

Varðandi vaktirnar er það alveg rétt að ef allir flugmennirnir ættu heima á Suðurnesjunum værum við væntanlega ekki að ræða þetta. En allir starfsmennirnir á Sogni eiga heima á Árborgarsvæðinu og ekki er tekið tillit til þess þegar verið er að flytja fólk af því svæði til Reykjavíkur. Tökum þá bara umræðuna. Ég er ekki að tala um að standa fyrir stórfelldum hreppaflutningum flugmanna til Suðurnesja þó að ég mæli sérstaklega með búsetu þar þar sem ég er búsett þar sjálf. Ef ég fæ að vera alveg hreinskilin þá á þetta ekki að vera vandamál í prinsippinu, þetta er þá bara úrlausnarefni. Menn verða að ákveða hvar ætla þeir að búa. Hentar það starfseminni? Það mundi ekki henta mér að búa í Keflavík ef ég væri í vinnu á Akureyri. Ég þyrfti væntanlega að skoða minn gang nákvæmlega eins og fólk þarf að gera þegar ríkisstofnanir hafa verið fluttar á milli staða. Landmælingar voru fluttar til Akraness á sínum tíma. Við getum nefnt fleiri dæmi. (Forseti hringir.) Auðvitað er þetta átak meðan á því stendur en skammtímahugsunin og langtímahugsunin verða að fara saman í þessu tilfelli.