140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður hefði heyrt alla ræðu mína hefði hann heyrt að ég gerði einmitt grein fyrir því sjónarmiði að þetta snerist ekki bara um að bæta úr atvinnuástandi á Suðurnesjum, jafnbrýnt og það verkefni er.

Ég er þeirrar skoðunar að starfsemi Gæslunnar, með tilliti til flugsins og hafnaraðstöðu og þess sem þar er fyrir hendi, væri betur fyrir komið þar. Ég óskaði eftir því að gerð yrði athugun á hagkvæmninni. Ég lýsti þeim annmörkum sem ég sá á hagkvæmniathuguninni sem gerð var.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir um starfsemina í Skógarhlíð og eitt af því sem við hljótum að þurfa að taka til greina. Þar hafa komið fram athugasemdir gegn þessu sjónarmiði og þá þurfum við að fara í gegnum það. Ég treysti þeim vel sem starfa í þessu umhverfi til að meta það. Spurningin er: Væri óhugsandi að starfsemin í Skógarhlíðinni, sem er fyrst og síðast fjarskipta- og samhæfingarstarfsemi, væri áfram þar jafnvel þótt skipin, flugvélarnar og annar rekstur Gæslunnar flyttist til Suðurnesja? Skoðum það. Ég get ekki ákveðið það hér og nú en það er eitt af þeim atriðum sem þarf að skoða. Eins þurfum við að skoða hagkvæmnina til langs og skamms tíma vegna þess að ég geri fyrirvara, og ég ætla ekki að endurtaka þá, við þá úttekt sem gerð var fyrr í vor.