140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[17:13]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf skemmtilegt að hlusta á túlkun hv. þm. Marðar Árnasonar í meðferð íslenskrar tungu af því að hann er mjög glúrinn á því sviði. Það skal ekki af honum skafið. Það er skemmtilegt að skiptast á skoðunum um það.

Útnesjamenn og Suðurnesjamenn, Innnesjamenn, þetta er rétt eins og hv. þingmaður vék að málfar sem tíðkaðist fyrir margt löngu. En eftir að samgöngur breyttust til Suðurnesja frá Faxaflóasvæðinu Reykjavíkurmegin þá féllu þessi orð út og eru ekki notuð á Reykjanesi nema í einstaka tilvikum þar sem menn hafa gaman af að stilla upp hlutum í tengslum við gamla orðnýtingu. Það er bara skemmtilegt að bregðast við þessu en málið snýst ekki um þetta, þetta eru svona smáatriði og tittlingaskítur, virðulegi forseti, og ástæðulaust að karpa um það.

Markmiðið er að ná fram hagstæðustu kostum í því verkefni sem liggur fyrir að þarf að skoða og menn vilja skoða og hæstv. ráðherra hefur lýst yfir, að flytja starfsemina a.m.k. að einhverju leyti til Suðurnesja. Auðvitað ætlast enginn maður sem kann á verklagið í dag til þess að stofnun eins og Landhelgisgæslan sé nákvæmlega á einum stað. Þetta á að tengjast bestu kostum og möguleikum í landinu. Þetta er ein af eignum þjóðarinnar og þess vegna skiptir miklu máli að velja þann kost sem er rýmilegastur.