140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

höfuðborg Íslands.

29. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú fjallar þessi tillaga ekki um Reykjavíkurflugvöll og tilveru hans, en af því að rætt var um kápuna á báðum öxlum og um tungur tvær þá kemur í ljós í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll einmitt að helstu meðhaldsmenn hans úr öðrum kjördæmum en Reykjavíkurkjördæmi og nágrannakjördæmi þess tala einmitt oft tungum tveim og bera kápuna á báðum öxlum. Þeir tala mikið um skyldur Reykvíkinga, um höfuðborgarhlutverkið sem við í Reykjavík megum ekki bregðast, um það tillit, og ég tek undir það, sem við verðum að sýna í skipulagsmálum okkar í Reykjavík við það hlutverk að vera höfuðborg. En þeir hinir sömu, forseti, tala ekkert um höfuðborgina þegar til stendur að taka heilar stofnanir þaðan, atvinnufyrirtæki, stjórnsýslumiðstöðvar, og flytja þær þangað sem þeim líst, til Grímseyjar, Kolbeinseyjar, Norðfjarðar, Trékyllisvíkur, Vestmannaeyja, Keflavíkur eða hvað mönnum sýnist. (Gripið fram í.) Þá er það gleymt að Reykjavík sé höfuðborg, þá skiptir það engu máli. Þá er hægt, til þess að veiða atkvæði og halda þeim við sitt nafn og síns flokks, að taka Reykjavík og nota hana eins og hverja aðra gólftusku. Þá er allt gleymt um skyldur, réttindi og stöðu höfuðborgarinnar vegna þess að menn tala tungum tveimur og bera kápuna á báðum öxlum.